Fótbolti

Cancelo frekar til Al Hilal en Ron­aldo og fé­laga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Cancelo lék með Barcelona á síðustu leiktíð en liðið vildi ekki fá hann í sínar raðir að tímabilinu loknu.
Cancelo lék með Barcelona á síðustu leiktíð en liðið vildi ekki fá hann í sínar raðir að tímabilinu loknu. Vísir/Getty Images

Hinn portúgalski João Cancelo er genginn í raðir Al Hilal í Sádi-Arabíu. Vekur það athygli þar sem Al Hilal er ríkjandi meistari og Al Nassr, lið Cristiano Ronaldo, þarf nauðsynlega á liðsstyrk að halda.

Cancelo var ekki í myndinni hjá Pep Guardiola, þjálfara Englandsmeistara Manchester City, og hefur í raun ekki verið það undanfarið eitt og hálft ár. Hann var lánaður til Bayern München í ársbyrjun 2023 og svo til Barcelona á síðustu leiktíð.

Nú hefur verið greint frá að þessi þrítugi bakvörður sé mættur til Sádi-Arabíu. Borgar Al Hilal rúmlega 21 milljón sterlingspunda eða 3,8 milljarða íslenskra króna til að fá leikmanninn í sínar raðir. Hann skrifar undir þriggja ára samning og er sagður fá tæplega 2,8 milljarða íslenskra króna í árslaun.

Athygli vekur að Cancelo sé að ganga í raðir meistaraliðs Al Hilal en ekki samkeppnisaðilanna sem einnig eru í eigu PIF, opinbera fjárfestingarsjóðs Sádi-Arabíu.

Al Hilal byrjaði tímabilið á öruggum 3-0 sigri þar sem Aleksandar Mitrović skoraði tvö og samlandi hans Sergej Milinković-Savić það þriðja. Önnur þekkt nöfn í liði Al Hilal eru markvörðurinn Bono, miðvörðurinn Kalidou Koulibaly, bakvörðurinn Renan Lodi og portúgalski miðjumaðurinn Rúben Neves.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×