Enski boltinn

Keyptur á 4,5 milljarða en sparkaður illa niður sólar­hring síðar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matt O'Riley situr hér sjárþjáður í grasinu en fyrsti leikur hans með Brighton & Hove Albion endaði eftir aðeins sex mínútur.
Matt O'Riley situr hér sjárþjáður í grasinu en fyrsti leikur hans með Brighton & Hove Albion endaði eftir aðeins sex mínútur. Getty/Mike Hewitt

Danski landsliðsmaðurinn Matt O'Riley lék sinn fyrsta leik með enska úrvalsdeildarfélaginu Brighton í gær en kvöldið endaði alltof snemma hjá miðjumanninum.

Fabian Hurzeler, knattspyrnustjóri Brighton, gagnrýndi fáránlegt brot á O'Riley í deildabikarsigri á neðrideildarliðinu Crawley. O'Riley haltraði af velli eftir brotið.

Atvikið varð strax á sjöttu mínútu þegar Jay Williams, fyrirliði Crawley, sparkaði hann gróflega niður. Hurzeler segir að leikmaðurinn hafi meiðst á ökkla og að þetta líti ekki vel út.

Sólarhring áður hafði Brighton borgað Celtic 25 milljónir punda fyrir O'Riley eða rúma 4,5 milljarða íslenskra króna.

„Þú getur ekki tæklað svona. Þetta er tækling þar sem þú ert að taka áhættuna á því að meiða annan leikmann,“ sagði Hurzeler.

Williams fékk ekki einu sinni spjald en stuðningsmenn Brighton bauluðu á hann allan fyrri hálfleikinn og svo aftur þegar hann var tekinn af velli í seinni hálfleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×