Skoðun

Hvað kostar stöðug­leikinn?

Jónas Snædal skrifar

Þegar hið svokallaða SALEK samkomulag var undiritað árið 2015 var leitast við að mynda stöðugleika á almennum vinnumarkaði og þá helst gagnvart almennu starfsfólki en á þeim tímapunkti lifði stór hluti þjóðarinnar undir fátækramörkum sökum afleiðinga efnahagshrunsins árið 2008.

Þrátt fyrir að sérstaklega væri tekið fram við undirritun samninga og í tilkynningum frá ASÍ, sem var helsti hagsmunaaðili SALEK samkomulagsins, að ekki væri verið að semja fyrir hönd starfsfólks sem heyrði ekki undir þau félög sem voru þátttakendur að samkomulaginu, var litið svo á, bæði hjá opinberum og almennum vinnuveitendum að hér væri um að ræða samkomulag sem leggði línurnar fyrir alla samninga á vinnumarkaði.

Þegar fagfélögin settust við samningsborðið var því ekki um neina samninga að ræða, heldur afarkosti. Annað hvort væri samið innan ramma þess samkomulags sem samið var um í SALEK samkomulaginu, eða að ekki væri samið. Hér var í raun verið að taka samningsrétt af fagfélögum eins og ST, sem hafa innan sinna vébanda einstaklinga sem búa yfir sérþekkingu og reynslu. Sú reynsla hefur á undanförnum áratugum reynst ómetanleg fyrir okkar litlu þjóð, sem er orðin þekkt fyrir útflutning á hugviti.

Eins undarlegt og það kann að virðast virðast þingmenn og starfsfólk Alþingis ekki falla undir SALEK samkomulagið, þrátt fyrir að ríkið væri aðili að því samkomulagi og neitaði að semja við fagfélögin utan þess. Viku eftir alþingiskosningar árið 2017, eftir að hafa haldið launaþróun á almennum vinnumarkaði niðri í tvö ár í skjóli SALEK hækkuðu alþingismenn sín eigin laun, í mörgum tilfellum um heil lágmarkslaun og jafnvel umfram það. Þegar hér var komið leit undirritaður svo á að búið væri að rjúfa SALEK samkomulagið, en þó vildi þáverandi fjármálaráðherra ekki viðurkenna að svo væri, heldur væri verið að ‚leiðrétta‘ laun þingmanna til jafns við það sem gerist í nágrannalöndunum og þá tiltók hann Norsk laun sérstaklega, án þess að nefna að í Noregi er skattaumhverfið allt annað.

Við kjarasamningagerð árið 2023 fóru félögin af stað með það í huga að semja um hóflegar hækkanir til að ‚vernda stöðugleikann‘. Þar sem stærsti hagsmunaaðili samninganna, Íslenska ríkið, hefur ekki getað staðið við sinn hlut þegar kemur að verðbólgumarkmiðum, má líta sem svo á að samningar séu lausir. Nú er því komið að fagfélögunum.

Árið 2015 var verið að nota ‚stöðugleika‘ til að festa í sessi ástand sem þegar var farið að myndast á vinnumarkaði, en laun háskólamenntaðra höfðu hækkað mun hægar en ómenntaðra, meðal annars vegna þess að vel menntaðir einstaklingar sóttu síður eftir launahækkunum, þar sem við sáum að aðrir voru mun verr settir en við. Við samningaborðið voru þessi rök notuð til að festa í sessi það ástand sem við sjáum enn í dag, en vilji til að ‚leiðrétta‘ laun háskólamenntaðra, líkt og var gert fyrir alþingismenn árið 2017, hefur ekki verið til staðar. Þetta veldur því að háskólamenntaðir leita í auknum mæli úr landi eftir lífvænlegum störfum og launum við hæfi, en einnig erum við byrjuð að upplifa skort á sértækri þekkingu, sem veldur því að fyrirtæki leita í auknum mæli í að flytja þekkingarstörf úr landi.

Staðan nú er því sú að allt frá hruni 2008 hafa laun háskólamenntaðra hækkað mun minna en annara hópa og komið er að því að ‚leiðrétta‘ það ástand, til jafns við það sem gerist í nágrannalöndunum, til dæmis Noregi, þar sem laun tölvunarfræðinga eru samkvæmt salaryexpert.com og salaryexplorer.com rétt um 25% hærri en á Íslandi. Ekki myndu alþingismenn ýta undir óstöðugleika með því að taka til sín hækkanir sem ekki væri hægt að veita öðrum. Hversu óábyrg hagstjórn væri það?

Eins og staðan er í dag sér ungt fólk enga framtíð í því að leita í langt og dýrt háskólanám, sem síðan leiðir til starfsferils sem krefst endalausrar sí- og endurmenntunar til að vera á launum sem viðkomandi gæti verið á án menntunar. Því erum við að sjá flótta úr námi, sérstaklega hjá ungum karlmönnum sem eru mun líklegri til að sækja í raungreinanám, eins og tölvunarfræði.

Það má taka fram að hér á íslandi kemur meðal neminn úr tölvunarfræðinámi með um 4 til 6 milljónir í námslán, utan við neyslulán sem nemendur utan af landi þurfa mjög oft að grípa til vegna húsnæðis- og uppihaldskostnaðar, sem námslánin því miður standa engan vegin undir. Á sama tíma getur íslenskt námsfólk sótt um nám í Danmörku og þarf ekki að greiða krónu í skólagjöld. Ef viðkomandi vinnur með námi (sem íslenskt námsfólk gerir í mörgum tilfellum) getur nemandinn sótt um svokallaðan S.U. styrk (sem er styrkur, ekki lán) sem stendur undir húsnæðis og uppihaldskostnaði að miklu leiti. Íslenskur háskólanemi í Danmörku getur því komið skuldlaus úr náminu og byrjað að byggja sína framtíð á sterkum grunni og ílengist þá oftar en ekki erlendis.

Í stuttu máli: Allt frá hruni árið 2008 hefur ójafnvægi á vinnumarkaði á milli háskólamenntaðra og annara verið fest í sessi, fyrst um sinn vegna samkenndar háskólamenntaðra með þeim sem voru verr staddir, en seinna meir með SALEK samkomulaginu og þeim kjarasamningum sem hafa fylgt í kjölfarið. Við höfum þegar séð talsverðar afleiðingar þessara aðgerða í spekileka og flótta úr námi, en þegar fram líða stundir geta afleiðingarnar orðið mun alvarlegri, þar sem hugvit og þekking er orðin ein verðmætasta útflutningsafurð Íslendinga.

Nú er komin tími á ‚leiðréttingu launa‘ til handa fagstéttum, hvort sem um er að ræða háskólamenntaða eða sérmenntaða. Að öðrum kosti verður stöðugleikinn ansi dýrkeyptur.

Með virðingu og vinsemd.

Höfundur er formaður Stéttarfélags Tölvunarfræðinga.




Skoðun

Skoðun

Börnin á Gaza

Elín Björk Jónasdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Að búa í sveit

Ása Valdís Árnadóttir,Björn Kristinn Pálmarsson,Dagný Davíðsdóttir,Ragnheiður Eggertsdóttir,Smári Bergmann Kolbeinsson skrifar

Skoðun

Spaðar

Dofri Hermannsson skrifar

Sjá meira


×