Umræðan

„What’s your claim to fame?“

Eyþór Jónsson skrifar

Fyrir nokkrum árum átti ég fund með forstöðumanni vísinda- og nýsköpunarsviðs Háskóla Íslands. Ég var mættur á réttum tíma en forstöðumaðurinn var enn á fundi þegar ég kom. Hann kom þó út af skrifstofu sinni stuttu síðar ásamt prófessor á félagsvísindasviði Háskóla Íslands sem heitir Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Forstöðumaðurinn heilsaði mér og spurði Hannes hvort að við Hannes hefðum ekki hist áður. Hannes leit á mig rannsakandi um stundarkorn og sagði svo: „What’s your claim to fame?“

Ég verð að játa að eitt augnablik var ég orðlaus en sagði svo: „Ég ritstýrði þér þegar ég var ritstjóri Vísbendingar!“ Á einhvern undarlegan hátt hafði það rifjast upp fyrir mér að ég ritstýrði vikuritinu Vísbending – Tímarit um viðskipti- og efnahagsmál um nokkurra ára skeið og að Hannes hafði skrifað endrum og eins greinar í ritið. Ég hafði aldrei verið spurður þessarar spurningar áður og greinilega misskildi spurninguna þar sem Hannes var sennilega að spyrja um frægð frekar en hvað ég gerði eða hefði gert – eða með öðrum orðum fyrir hvað ég væri frægur.

Augljóst var að hann þekkti mig ekki einu sinni sem ritstjóra og þar af leiðandi var ólíklegt að aðrir sæju einhverja sérstaka frægð í ritstjórnarferli mínum fyrir Vísbendingu. Þetta er hins vegar áhugaverð spurning hjá Hannesi þó að hugsanlega megi túlka hana með mismunandi hætti, sem ég ætla að gera: 1. Fyrir hvað ertu frægur? 2. Hvað hefur þú gert? 3. Hvað getur þú gert? Og 4. Hver er þín arfleifð?

Frægðin

Frægð virðist skipta fólk meira máli nú en áður. Ef maður spurði börn fyrir einungis þrjátíu árum síðan hvað þau ætluðu að gera þegar þau væru orðin „stór“ þá svarið yfirleitt í tengslum við einhverja vinnu, þ.e. flugmaður, slökkviliðsmaður, kokkur o.s.frv. Núna er algengt að svarið sé; Youtuber, áhrifavaldur, poppstjarna, íþróttastjarna eða bara ofboðslega frægur. Það má sennilega finna nokkrar ástæður fyrir þessu breytta viðhorfi en ein ástæðan er klárlega dreifileiðir fyrir boðskap, hæfileika eða bara einhver skrýtin uppátæki. Gömlu fjölmiðlarnir – prentmiðlar, útvarp og sjónvarp (og bíó) – höfðu hvað mest áhrif á það hver var frægur og ekki frægur fyrir einungis þrjátíu árum.

Ég hafði aldrei verið spurður þessarar spurningar áður og greinilega misskildi spurninguna þar sem Hannes var sennilega að spyrja um frægð frekar en hvað ég gerði eða hefði gert – eða með öðrum orðum fyrir hvað ég væri frægur.

Núna eru dreifileiðirnar miklu fleiri, sem stundum er flokkað undir einum hatti sem samfélagsmiðlar. Fólk getur orðið frægt án þess að nýta gömlu fjölmiðlana, sem var óhugsandi áður. Eitt þekktasta nafnið sem varð til eftir Ólympíuleikanna í París er ekki endilega mesta íþróttastjarna Ólympíuleikanna heldur ástralskur breikari, Rachael Gunn eða B-Girl Raygun, fyrir óvenjulegt atriði sem fór eins og eldur um sinu á samfélagsmiðlum. Það er þessi vírusvirkni (e. virality) samfélagsmiðla sem getur þýtt að fólk verður heimsfrægt án þess endilega að það nýti gömlu boðleiðirnar. Reyndar í tilviki B-Girl Raygun þá var hún ekki að óska eftir eða stýra þessari vírusvirkni. Stundum verður fólk frægt með þessum hætti fyrir eigið ágæti eða hæfileika, eins og tónlistarkonan Laufey Lín Jónsdóttir. Stundum þarf enga hæfileika eða ágæti til.

Þessi frægð á samfélagsmiðlum getur ekkert síður en önnur frægð skilað sér í tekjum og verðmætum. Það vakti nokkra athygli þegar Youtuberunum Paul Logan og KSI settu á markað drykkinn Prime og náðu sölu upp á 250 milljónir Bandaríkjadala (um 35 milljarðar íslenskra króna) að eigin sögn, með því nýta sér frægðina á samfélagsmiðlum. Þeir eru hins vegar ekki stærsta stjarna Youtube, sem er sennilega Mr. Beast, sem hefur verið undir mikilli gagnrýni að undanförnu sem gæti leitt til að hann verði bannaður á Youtube, en hann er metinn á 500 milljónir dala, eða 70 milljarða íslenskra króna. Það hefur hins vegar ekki öllum gengið jafnvel að búa til verðmæti úr frægðinni á samfélagsmiðlum.

Frægð þarf ekki endilega að vera tilkomin vegna hæfileika eða vegna þess að fólk hafi gert eitthvað stórkostlegt heldur ekki síður að fólk hefur kunnað að nýta sér fjölmiðla og þá ekki hvað síst samfélagsmiðla. Þegar Hannes spurði um þessa frægð mína þá hefði rétta svarið verið að ég hefði í raun ekkert ákall til frægðar nema að frægð sé skilgreind út frá því að tugir einstaklinga kannist við mann frekar en milljónir eða milljarðar einstaklinga eins og sennilega er átt við með frægð.

Gjörðin

Önnur saga er hvað maður hefur gert þó að maður sé kannski ekki landsfrægur eða hvað þá heimsfrægur fyrir. Á þessu byggðist svar mitt við spurningu Hannesar. Ég var að leita eftir einhverju í huga mér sem ég hefði gert sem hann gæti tengt við, þar af leiðandi sagði ég að ég hefði ritstýrt Vísbendingu sem hann hefði jú skrifað greinar í. Ég hefði örugglega talið til eitthvað fleira en frosið hugmyndaflugið við þessar aðstæður gerðu það að verkum að ekkert annað kom í hugann.

Stundum verður fólk frægt með þessum hætti fyrir eigið ágæti eða hæfileika, eins og tónlistarkonan Laufey Lín Jónsdóttir. Stundum þarf enga hæfileika eða ágæti til.

Millifyrirsögnin „gjörðin“ er ekki alveg úr lausu lofti gripin þar sem þetta orð er yfirleitt notað í tengslum við kirkjuna þó að þetta sé hið fínasta orð fyrir almenna notkun. Það er hins vegar oft við andlát fólks sem ferilskráin er dregin fram og farið yfir hvað einstaklingur hefur gert. Þá er farið yfir hvaða störfum einstaklingur hefur sinnt, bæði launuðum og ólaunuðum. Stundum eru ákveðin afrek nefnd sérstaklega, þ.e. eitthvað sem fólk hefur gert og það hefur skipt máli fyrir einhverja, hvort sem er fáeina einstaklinga eða samfélagið. Þessi afrek þurfa hins vegar ekki að hafa leitt til frægðar.

Þegar ferilsskráin er skrifuð er yfirleitt kafli um menntun og störf og oft virðist það vera mælikvarðinn á hvað fólk hefur gert, þ.e. menntun annars vegar og störf og stöðugildi hins vegar. Auðvitað hefur fólk samt gert fullt af öðrum hlutum sem ratar ekki inn á ferilskrá, hvort sem það felst í því hvernig fólk hefur lifað lífi sínu og vaxið sem einstaklingar eða hvað fólk hefur gert fyrir aðra, hvort sem það er nánasta fjölskylda og vinir eða aðra ótengda og samfélagið. Um daginn rataði inn á skrifstofu mína maður sem taldi upp einhverja vinnustaði sem hann hafði unnið hjá en vöktu engan sérstakan áhuga en svo bætti hann við … og svo stofnaði ég íþróttafélag! Þá varð ferilskráin miklu áhugaverðari. Lengi vel þótti það mikill kostur ef var verið að ráða fólk að það hefði lagt stund á íþróttir og jafnvel skilað árangri á þeim vettvangi, þar sem fólk er þá vant miklu æfingaálagi, sigrum og ósigrum, einstaklings- og hópvinnu, seiglu o.s.frv. Sennilega myndu margir frekar horfa til árangurs í stafrænum heimi núna þar sem tæknilæsi er orðin lykilhæfni í flestum störfum.

Gjörðin snýst um að stökkva frekar en hrökkva og þarf ekkert með þekkingu eða hæfni að gera. Lengi vel var slagorð Nike „just do it!“ í tísku sem besta ráðið í leik og starfi og það er í sjálfu sér mikilvægur þáttur í lærdómsferli einstaklinga að gera hlutina, vera ófeiminn að gera mistök til þess að læra af þeim og taka svo skrefið aftur með nýja þekkingu og hæfni í farteskinu. Þeir sem þora að taka frumkvæðið og gera hlutina eiga þess vegna oft mun áhugaverðari feril en þeir sem vilja frekar sitja hjá og horfa á. Það er hins vegar yfirleitt erfiðari leiðin og ótroðnari og ekki alltaf vegur til árangurs eða frægðar.

Hæfnin

Hvað maður kann og getur þarf ekki endilega að vera áskrift að því að maður hafi gert eitthvað. Fólk getur verið búið að læra og þjálfa hæfni en í aldrei í raun gert neitt með hana. Þetta er í raun þversögnin um markvirkni í fyrirtækjum. Þú getur verið með sprenglært fólk sem hefur hæfni til þess að gera en vegna skipulags og fákunnáttu stjórnenda gerir fólk lítið til þess að skapa raunveruleg verðmæti. Ég tók dæmi um þetta í pistli fyrir nokkrum vikum þar sem ég var að velta því fyrir mér hvort það væri ekki hægt að opna flóðgátt af góðum gjörðum með því að virkja og meta háskólaprófessora út frá samfélagslegum lausnum sem þeir leggja til frekar en að láta þá safna punktum fyrir tilgangslitlar rannsóknir og ritgerðarstíla í tímaritum sem fáir lesa. Hugmyndin um að virkja hæfni er tilvísun í hugmyndir Edith Penrose um að það þarf að nýta hæfni en ekki láta hana rykfalla á lagernum.

Það er hins vegar ekki mikill tilgangur í því að safna gráðum sem á ekki með neinu móti að nýta eða að búa til og styðja við menntun sem hafði tilgang í fortíðinni en hefur lítinn sem engan tilgang í framtíðinni.

Ég hefði getað svarað Hannesi með tilvísun í fjölda háskólagráða og þannig vísað í hæfni frekar en gjörðir mínar. En Íslendingar eru ekki mennta-snobbarar, þó að margir vilji halda því fram, en hafa frekar metið það sem gert hefur verið með hæfnina að leiðarljósi. Við erum ekki eins og til dæmis Þjóðverjar sem tekst að koma öllum gráðum og stöðum inn í titilinn hjá sér. Þeir hafa líka ótrúlega marga forstjóra sem eru með doktorsgráður. Hér eru þeir fáir.

En hæfni og þekking er gríðarlega mikilvæg og byggir á að fólk læri og þjálfi sig. Fólk lærir til að geta gert eitthvað nýtt og þjálfar til þess að ná góðum tökum á einhverjum aðgerðum. Við höfum ótal sönnur þess að með því að leggja ekki áherslu á menntun og þjálfun erum við að dæma fólk og jafnvel samfélög, í flestum tilvikum, til fátæktar. Með hæfni og þekkingu að vopni er allavega von. Án þess er niðurstaðan oft vonleysi. Það er þess vegna mikilvægt að mennta sig og það er í langflestum tilvikum ávísun á hærri launatékka og verðmætasköpun á lífsferlinum. Menntuð samfélög eiga líka meiri möguleika á að skapa þjóðarframleiðslu hvort sem er með eða án auðlinda. Það á þess vegna ekki að gera lítið úr menntun.

Það er hins vegar ekki mikill tilgangur í því að safna gráðum sem á ekki með neinu móti að nýta eða að búa til og styðja við menntun sem hafði tilgang í fortíðinni en hefur lítinn sem engan tilgang í framtíðinni. Markvirkni menntunar sem stuðlar að þekkingu og hæfni sem á að nýta og er í takt við þarfir framtíðarinnar hlýtur að þurfa að vera leiðarljósið. Ef ég hefði verið með menntun eða þjálfun til dæmis í lífeðlisfræði eða gervigreind hefði ég getað sennilega getað slegið mig til riddara í svari fyrir Hannes. Í því hefði verið von og möguleikar um hæfni og þekkingu sem gæti breytt heiminum.

Arfleifðin

Harvard prófessorinn Clayton Christensen skrifaði áhugaverða bók „How Will You Measure Your Life?" sem fjallar um vangaveltur hans um hvernig á að lifa lífinu og er að einhverju leyti tilraun til að svara spurningunnu um hvað er árangursríkt líf. Sennilega myndu heimspekingar ekki tala um tímamótaverk í þessu samhengi en bókin er áhugaverð fyrir marga sem koma úr viðskiptalífinu, sérstaklega vegna þess að kenningar úr stjórnun og stefnumótun skína í gegnum vangaveltur Christensen. Hann tekur þó ekki undir hefðbundnar skilgreiningar á árangri og arfleifð, þar sem auður, völd, frægð og staða í samfélaginu eru mælikvarðar. Hann leggur meiri áherslu á að áhrifin sem fólk hefur haft á líf annarra, styrkleika sambands við vini og fjölskyldu og hversu vel fólki hefur tekist að uppfylla tilgang sinn. Rauði þráðurinn í bókinni er tilgangurinn, að finna hvað skiptir sköpum fyrir sjálfan sig og nota það til grundvallar í aðgerðum og ákvarðanatökum.

Allir ættu að spyrja sig þessara spurninga reglulega til þess að reyna að átta á sig hver vegferðin er og hvert henni er heitið. Þetta er gamla hugmyndin um skilvirkni og markvirkni, það er eitt að gera hlutina rétt, sem við erum yfirleitt að reyna, það er annað að gera réttu hlutina!

Ég ræddi arfleifðina við einn félaga minn og hann sagði að leikurinn snýst um að eiga sem mest af dóti í lok leiksins. Það er kannski ekki það sem Christensen átti við en virðist stundum vera tilgangur og markmið fólks. Auðvitað eru þá margir að hugsa um hvað þau geta skilið eftir, kannski í fjármunum frekar en „dóti“, handa börnum og barnabörnum. Sumir hafa þó tekið áhugavert skref og lofað að gefa mestan hlut peninga sinna til almennings frekar en ættingjanna.

Bill Gates og Warren Buffet stofnuðu Giving Pledge árið 2010 þar sem markmiðið var að fá auðugustu einstaklinga í heimi til þess að gefa auðlegðina til samfélagslegra mála hvort sem er á líftíma sínum eða í erfðaskránni. Nokkrir frægir frumkvöðlar hafa lofað að gefa allavega meirihluta eða næstum alla sína fjármuni (99%) eins og Warren Buffet ($120 milljarðar - Berkshire Hathaway), Bill og Melinda Gates ($100 milljarðar - Microsoft), MacKenzie Scott ($30 milljaraðar- fyrrverandi eiginkona Jeff Bezos – Amazon.com), Elon Musk ($200 milljarðar - Tesla o.fl.), Mark Zuckerberg og Priscilla Chan ($100 milljarðar - Facebook), Laurene Powell Jobs ($20 milljarðar - ekkja Steve Jobs – Apple), Michael Bloomberg ($90 milljarðar - Bloomberg) og Richard Branson ($4 milljarðar - Virgin). Samanlagt eru þessir einstaklingar að lofa að gefa til baka til samfélagsins eitthvað um 61 þúsund milljarða íslenskra króna. Með öðrum orðum er það þrettánföld núverandi verg landsframleiðsla Íslands. Hugsanlega gæti þessi arfleifð verið flokkuð sem „claim to fame.“

Hvort sem maður ætlar að gefa skyldmennum eða samfélaginu fjárhagsleg verðmæti sem maður hefur skapað er það hluti af arfleifðinni en eins og Christensen benti á ekki eini mælikvarðinn, og kannski ekki sá besti. En kannski er spurning um arfleifð ekki svar við spurningu Hannesar, heldur væri spurningin þá frekar „What‘s your legacy?“ Fæstir hugsa mikið um þessa spurningu nema undir lok ævinnar eða þegar þau upplifa það að vera nær dauða en lífi og fara að velta fyrir sér hvað þau skilja eftir sig. Þetta er ekki síður áhugaverð spurning en „What‘s your claim to fame?“ vegna þess að hún kallar á langtímahugsun eins og Christensen var að benda á, mótar að einhverju leyti hvernig við munum lifa lífi okkar, þ.e. ef við getum skilgreint hver tilgangur okkar er og tekið ákvarðanir og aðgerðir í takt við það. Hægara sagt en gert en getur breytt lífi fólks, eins og oft er raunin þegar fólk hefur komist hjá dauðanum og sér lífið í öðru ljósi.

Tilgangurinn

Mörgum árum eftir að Hannes spurði mig „What‘s your claim to fame?“ finnst mér oft gaman að spyrja nemendur þessarar spurningar og segja þeim söguna á bak við hana. Þetta er spurning sem kallar á naflaskoðun, sérstaklega ef maður túlkar hana ekki einungis út frá frægð eins og ég gerði hér að ofan. Það mætti bæta við fimmtu túlkuninni sem eru spurningin um tilganginn, hver er tilgangur þinn eða ertu búinn að hugsa um hvað skiptir þig í raun og veru mestu máli bæði út frá sjálfum þér og í því samfélagi sem þú lifir. Hugsanlega þarf ég að kafa dýpra en að telja það til tilgangs eða tekna að ég hafi ritstýrt Hannesi þó að vissulega sé það afrek út af fyrir sig.

Hugsanlega þarf ég að kafa dýpra en að telja það til tilgangs eða tekna að ég hafi ritstýrt Hannesi þó að vissulega sé það afrek út af fyrir sig.

Ég veit ekki hvort Hannes gangi um og spyrji fólk þessarar spurningar eða hvort þetta var undantekningin frekar en reglan. Það væri hins vegar þarft verk og mikilvægt að spyrja fólk um stærra samhengi lífsins en daglegt amstur og fá þannig fólk til þess að hugsa með öðrum hætti en það annars gerir. Í raun skipti svar mitt ekki máli heldur var tilgangurinn fólginn í að spyrja mig spurningar sem hefur vakað með mér allar götur síðan og orðið tilefni til ótal umræðna um hvernig fólk vill lifa lífi sínu og skila sem arfleifð. Allir ættu að spyrja sig þessara spurninga reglulega til þess að reyna að átta á sig hver vegferðin er og hvert henni er heitið. Þetta er gamla hugmyndin um skilvirkni og markvirkni, það er eitt að gera hlutina rétt, sem við erum yfirleitt að reyna, það er annað að gera réttu hlutina! Spurningar um frægð, gjörðir, hæfni, arfleifð og tilgang vekja okkur til umhugsunar um hvað þessir réttu hlutir eru og af hverju.

Höfundur er forseti Akademias.






×