Erlent

Stofnandi Telegram á­kærður fyrir glæpa­starf­semi á miðlinum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Durov er búsettur í Dúbaí, þar sem einnig er að finna höfuðstöðvar Telegram.
Durov er búsettur í Dúbaí, þar sem einnig er að finna höfuðstöðvar Telegram. Getty/Steve Jennings

Pavel Durov, annar stofnenda samfélagsmiðilsins Telegram hefur verið ákærður í Frakklandi fyrir að grípa ekki til aðgerða til að koma í veg fyrir glæpastarfsemi á miðlinum.

Durov, sem er fæddur í Rússlandi en með ríkisborgararétt í Frakklandi, var handtekinn á flugvelli fyrir utan París síðustu helgi, þar sem hann lenti þrátt fyrir að handtökuskipun hefði verið gefin út á hendur honum.

Hann er meðal annars ákærður fyrir aðild að dreifingu barnaníðsefnis á Telegram og fjölda annarra brota.

Durov hefur verið látinn laus gegn tryggingu.

Notendur Telegram eru um 950 milljón talsins en samfélagsmiðillinn hefur verið mikið notaður í umræðu um stríðið í Úkraínu.

Handtaka Durov hefur vakið mikla umræðu um ábyrgð stjórnenda samfélagsmiðla, sem hafa löngum verið notaðir af glæpamönnum, meðal annars til að dreifa ólöglegu efni og stunda ólögleg viðskipti.

Það er afstaða Telegram að það sé ekki hægt að sækja Durov til ábyrgðar fyrir gjörðir annarra en aðrir benda á að samfélagsmiðlarnir, sem margir velta milljörðum og hafa gert eigendur sína moldríka, ættu að axla ábyrgð þegar þeir gera ekki nóg til að koma í veg fyrir að glæpastarfsemi þrífist á miðlunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×