Fótbolti

Andorrski foringinn bætti treyju Pablo Punyed í safnið

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ildefons Lima í treyju El Salvador með Víkingstreyju Pablo Punyed. Á bakvið má sjá lítinn hluta gríðarstórs treyjusafns hans.
Ildefons Lima í treyju El Salvador með Víkingstreyju Pablo Punyed. Á bakvið má sjá lítinn hluta gríðarstórs treyjusafns hans. X/@ildelima6

Íslandsmeistarar Víkings eru staddir í Andorra í Pýreneafjöllum og eiga þar síðari leik við Santa Coloma í umspili Sambandsdeildarinnar fyrir höndum klukkan 18:00 í kvöld. Í Andorra er maður sem lætur heimsóknir erlendra fótboltamanna aldrei fram hjá sér fara.

Ildefons Lima var landsliðsfyrirliði Andorra um árabil og stundaði það grimmt að skipta á treyjum við leikmenn andstæðinganna. Ferill hans rann loks sitt skeið í fyrra þegar hann var orðinn 44 ára gamall en hann spilaði 137 landsleiki fyrir andorrska landsliðið milli 1997 og 2023.

Á þeim tíma safnaðist ævintýralegt treyjumagn í safn hans sem er að líkindum á meðal þeirra stærri í heimi. Treyjurnar eru vel flokkaðar og geymdar í plasti til að koma í veg fyrir skemmdir.

Lima fékk til að mynda treyjur frá Birki Má Sævarssyni, leikmanni Vals, þegar hann kom hingað til lands með liði Santa Coloma árið 2019 í Evrópuverkefni.

Lima lét heimsókn Víkinga til heimalands hans ekki fram hjá sér fara og fékk tvær treyjur að gjöf frá El Salvadoranum Pablo Punyed. Bæði Víkingstreyju og landsliðstreyju.

Víkingur mætir Santa Coloma (Þó öðru Santa Coloma liði en Ilde Lima kom með á Hlíðarenda) í síðari leik liðanna í Andorra í kvöld.

Leikur Santa Coloma og Víkings hefst klukkan 18:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Kjartan Atli Kjartansson mun hita upp fyrir leikinn ásamt sérfræðingum frá klukkan 17:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×