Erlent

Láta af á­tökum í þrjá daga til að greiða fyrir bólu­setningum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fjölskylda á Gasa. Drengurinn í stólnum hefur greinst með mænusótt.
Fjölskylda á Gasa. Drengurinn í stólnum hefur greinst með mænusótt. Getty(NurPhoto/Majdi Fathi

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir Ísrael og Hamas hafa samþykkt að láta af átökum á Gasa til að greiða fyrir bólusetningu barna gegn mænusótt. Bólusetningar eiga að hefjast á sunnudag.

Um er að ræða samkomulag til þriggja daga, þar sem átök verða stöðvuð frá sex að morgni til þrjú um daginn, að því er virðist á tilgreindum svæðum. Til stendur að bólusetja um 640 þúsund börn.

Ísraelsher gerði árás á bílalest á Gasa í gær sem flutti hjálpargögn. Að sögn hersins beindist árásin gegn vopnuðum vígamönnum sem freistuðu þess að taka út fremstu bifreiðina og „ræna“ lestinni.

Hjálparsamtökin Anera, sem skipulögðu hjálparaðgerðina, segja hins vegar að ráðist hafi verið á bifreið starfsmanna flutningafyrirtækis sem sá um flutningana.

Fregnir herma að fimm hafi látist í árásinni.

Samkvæmt yfirmanni Anera í Palestínu, Söndru Rasheed, höfðu yfirvöld í Ísrael lagt blessun sína yfir flutninginn , undir áætlun sem miðar að því að hjálparstarf geti farið fram við öruggar aðstæður.

Starfsmaður Anera sem var með í för slapp ómeiddur og bílalestin komst á áfangastað.

Rasheed segir málið til skoðunar.

Atvikið fylgdi á hæla annarri uppákomu þar sem skotið var á bifreið merkta Sameinuðu þjóðunum en um borð voru starfsmenn Matvæláætlunar SÞ.

Ísraelsher hefur áður viðurkennt að hafa gert mistök og ráðist á hjálparstarfsmenn á Gasa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×