Erlent

Njósnamjaldurinn Hvaldimir allur

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Mjaldurinn Simjon, sem kannski hét Hvaldimir, smellir kossi á aðdáenda. Hann á þónokkra slíka. 
Mjaldurinn Simjon, sem kannski hét Hvaldimir, smellir kossi á aðdáenda. Hann á þónokkra slíka.  Mynd/Skjáskot

Mjaldurinn geðþekki Semjon, betur þekktur sem Hvaldimir, er allur. Sá komst í heimsfréttirnar fyrir nokkrum árum fyrir að vera sérlega gæfur, en mögulega ekki allur þar sem hann var séður. 

Mjaldurinn fannst úti fyrir Finnmörku í aprílmánuði 2019 og vakti þar beisli, sem hann hafði utan um sig, sérstaka athygli. Þótti beislið, sem á var letrað að tilheyrði Pétursborg í Rússlandi, benda til þess að mjaldurinn hefði verið þjálfaður af rússneska sjóhernum, mögulega til njósna.  

Þessu héldu norskir sérfræðingar fram lengi vel, en Rússar gáfu lítið fyrir þær kenningar. Norskir fjölmiðlar fjölluðu síðar um það að mjaldurinn væri sennilega ekki njósnari, heldur hafi hann verið notaður við meðferð á andlega veikum börnum í Rússlandi.  Því hafi hann verið einstaklega gæfur.

Nú greinir norski fjölmiðillinn VG frá því að Hvaldimir, frægasti mjaldur Noregs, sé nú dauður. Hann var dreginn upp á bryggju við Stavanger í dag en hann fannst við Risavika. Að sögn dýralæknis á enn eftir að rannsaka dánarorsök. 

Hvaldimir sást víða í norskum fjörðum síðustu ár ævi hans eftir að hafa vakið heimsathygli. Lék hann listir sínar, leyfði fólki að klappa sér og synti eftir fiski.

Til umræðu kom að flytja Hvaldimir til Íslands til að auka lífslíkur. 


Tengdar fréttir

„Heldurðu virkilega að við myndum hengja á hann símanúmer?“

Mjaldur, sem fannst í norskri landhelgi í vikunni og er talinn á vegum rússneska sjóhersins, hefur leikið listir sínar fyrir íbúa Tufjord í Noregi undanfarna daga. Rússneskur ofursti gefur lítið fyrir þær fullyrðingar að mjaldurinn sé gerður út til njósna af rússneska hernum.

Mjaldurinn líklega ekki njósnari heldur þroskaþjálfi

Mjaldurinn sem fannst úti fyrir Finnmörk í Noregi í lok apríl virðist ekki vera njósnari á vegum rússneska sjóhersins, líkt og talið var í fyrstu, heldur hafi hann verið notaður við meðferð á andlega veikum börnum í Rússlandi.

„Njósna­mjaldurinn“ skýtur upp kollinum í Sví­þjóð

Sænsk yfirvöld klóra sér nú í kollinum yfir því hvað þau eigi að gera með mjaldurinn Hvaldímír, grunaðan njósnara í þjónustu Vladímírs Pútín Rússlandsforseta, eftir að hann lét sjá sig við strendur landsins nýlega. Talið er að mjaldurinn sækist enn eftir samskiptum við menn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×