Enski boltinn

Sjáðu Jason Daða opna marka­reikninginn sinn í enska boltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Grimsby Town fagna Jasoni Daða Svanþórssyni eftir að hann skoraði markið sitt.
Leikmenn Grimsby Town fagna Jasoni Daða Svanþórssyni eftir að hann skoraði markið sitt. @officialgtfc

Jason Daði Svanþórsson var á skotskónum í enska boltanum í gær en hann skoraði þá sitt fyrsta mark fyrir Grimsby Town í sigri á Bradford City.

Markið skoraði Jason á 47. mínútu leiksins og kom Grimsby í 2-0. Liðið vann leikinn á endanum 2-1.

Knattspyrnustjórinn David Artell hrósaði marki Jasonar Daða eftir leikinn en það kom eftir hraða sókn upp hægri kantinn. Kieran Green gerði þá mjög vel í að snúa á varnarmann og keyra upp kantinn.

Jason fékk á boltanum í teignum, lék laglega á varnarmann og sendi hann síðan fram hjá markverðinum sem steig í vitlausan fót og átti enga möguleika.

Jason yfirgaf Breiðablik á miðju tímabili og hafði ekki náð að skora í fyrstu þremur keppnisleikjum sínum með Grimsby, tveimur í deild og einum í deildabikar.

Nú kom markið og Jasoni var fagnað vel af liðsfélögum sínum. Markið skipti líka miklu máli í lokin þegar Bradford náði að minnka muninn. Grimsby fagnaði sínum öðrum deildarsigri og situr í ellefta sæti töflunnar.

Það má sjá markið hans Jasonar Daða hér í svipmyndum frá leiknum hér fyrir neðan.

Markið kemur eftir rúma mínútu en sóknin hefst þegar 1:07 eru búnar af myndbandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×