Sport

Bergrós þarf að eiga svaka­legan sunnu­dag ætli hún á pall

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bergrós Björnsdóttir hefur áður átt frábæran lokadag og nú þarf hún að endurtaka leikinn.
Bergrós Björnsdóttir hefur áður átt frábæran lokadag og nú þarf hún að endurtaka leikinn. @bergrosbjornsdottir

Bergrós Björnsdóttir er í sjötta sæti fyrir síðasta daginn á heimsleikum unglinga í CrossFit en mótið fer fram um helgina í Bandaríkjunum.

Bergrós er að keppa í flokki sextán til sautján ára en hún vann bronsverðlaun í þessum flokki á heimsleikunum í fyrra.

Nú þarf okkar kona að eiga svakalegan lokadag ætli hún að komast aftur á verðlaunapallinn.

Bergrós er með 265 stig eftir fyrstu fimm greinarnar en það eru þrjár greinar á síðasta deginum. Það eru því þrjú hundruð stig í pottinum ennþá.

Selfyssingurinn er sextán stigum frá þriðja sætinu þar sem situr ríkjandi heimsmeistari Lucy McGonigle frá Írlandi. Það er mikil spenna því Bergrós er bara fimm stigum frá fimmta sætinu og átta stigum frá því fjórða.

Efstar eru tvær bandarískar stelpur, Reese Littlewood (336 stig) er 71 stigi á undan Bergrósu og Elsie Larson (322) er 57 stigum á undan okkar konu. Littlewood fékk 196 stig út úr tveimur síðustu greinum og tók með því forystuna.

Bergrós vann þriðju greinina og náði sjöunda sæti í fjórðu grein. Hún fékk því 64 prósent stiga sinna í þessum tveimur greinum en endaði síðan fjórtánda eða neðar í hinum þremur greinunum.

Bergrós átti svakalega endurkomu á heimsleikunum í fyrra og þekkir það því vel að koma öflug inn á lokakaflanum. Vonandi tekst henni að endurtaka leikinn í dag.

Ísland átti líka tvær konur á heimsleikum öldunga. Hjördís Ósk Óskarsdóttir frá Crossfit XY keppti í flokki 40 til 44 ára og í flokki 45-39 ára keppti Ingunn Lúðvíksdóttir frá Crossfit Sport.

Ingunn endaði í fimmtánda sæti en Hjördís Ósk varð í 28. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×