Líkt og vanalega spá flestir því að lið Bayern Munchen verði í baráttunni á toppnum í þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Liðið missti meistaratitilinn í hendur Bayer Leverkusen á síðustu leiktíð og mætir til leiks í ár með Vincent Kompany í knattspyrnustjórastöðunni.
Í dag mætti liðið Freiburg á heimavelli og komst yfir á 38. mínútu þegar Harry Kane kom Bæjurum yfir með marki úr vítaspyrnu.
Staðan í hálfleik var 1-0 og það var svo Thomas Muller sem bætti öðru marki við á 78. mínútu og innsiglaði sigur heimaliðsins. Bæjarar eru með sex stig eftir tvo leiki í þýsku deildinni og með jafnmörg stig og Heidenheim og Leipzig á toppnum.