Upp­gjörið: Stjarnan - Fylkir 1-2 | Fylkir strengdi sterkari líf­línu með sigri í Garða­bænum

Hjörvar Ólafsson skrifar
Fylkiskonur eru að berjast fyrir lífi sínu.
Fylkiskonur eru að berjast fyrir lífi sínu. vísir/HAG

Fylki nældi sér í ansi mikilvæg stig í baráttu sinni um að forðast fall úr Bestu deild kvenna í fótbolta með 2-1 sigri sínum gegn Stjörnunni í leik liðanna í fyrstu umferð í umspili liðanna í neðri hluta deildarinnar.

Það var Jessica Ayers sem kom Stjörnunni yfir með marki sínu skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks. Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir átti þá fyrirgjöf og Ayers kláraði færið í annarri atrennnu með skoti af stuttu færi.

Eva Rut Ásþórsdóttir jafnaði metin um miðbik seinni hálfleik með skoti af löngu færi. Erin Mcleod vildi fá dæmda aukaspyrnu í því marki en Hreinn Magnússon, dómari leiksins, lét sér fátt um finnast og lét markið standa.

Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Fylkis, setti Mariju Radojicic inná í framlínu Fylkis í hálfleik og hún hressti svo sannarlega upp á sóknarleik Fylkis. Marija skoraði sigurmark Fylkis eftir sendingu frá öðrum varamanni, Tinnu Harðardóttur. Það má því með sanni segja að varamenn Fylkis hafi skipt sköpum í þessum leik.

Fylkiskonur hafa nú 13 stig í næstneðsta deildarinnar en Keflavík er í neðsta sæti með 10 stig og Tindastóll í sætinu fyrir ofan fallsvæðið með 16 stig. 

Fylkir á eftir að mæta Tindastóli og Keflavík en Fylkisliðið sækir Tindastól heim á Sauðárkrók á laugardaginn næsta og fær síðan Keflavík í heimsókn í lokaumferð deildarinnar laugardaginn 14. september.

Stjarnan siglir hins vegar lygnan sjó með sín 21 stig en liðið mun mæta Keflavík suður með sjó á laugardaginn og svo Tindastóli á Samsung-vellinum í Garðabæ í síðasta leik sínum á tímabilinu laugardaginn þar á eftir. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira