Erlent

Mongólía hunsar hand­töku­skipun Al­þjóð­lega saka­mála­dóm­stólsins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Pútín virtist ekki hafa miklar áhyggjuar af því í gær að verða handtekinn.
Pútín virtist ekki hafa miklar áhyggjuar af því í gær að verða handtekinn. AP/Sputnik/Kristina Kormilitsyna

Stjórnvöld í Mongólíu hafa sætt harðri gagnrýni fyrir að bjóða Vladimir Pútín Rússlandsforseta velkominn til landsins með heiðursverði, í stað þess að handtaka hann.

Mongólía á aðild að Alþjóðlega sakamáladómstólnum, sem gaf út handtökuskipun á hendur Pútín í fyrra. Hann er sakaður um að hafa framið stríðsglæp þegar úkraínsk börn voru tekin og flutt til Rússlands.

Pútín kom til Mongólíu seint í gær og fékk höfðinglegar móttökur. 

Þegar fregnir bárust af ferðinni ítrekaði dómstóllinn að yfirvöldum í Mongólíu bæri að handtaka forsetann en Rússar létu sér það í léttu rúmi liggja.

„Við höfum engar áhyggjur, við eigum í góðu sambandi við vini okkar í Mongólíu,“ sagði Dmitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Moskvu, spurður um málið fyrir helgi.

Mongólía liggur á milli Rússlands og Kína og hefur freistað þess að eiga góð samskipti bæði við nágranna sína og Vesturlönd. Það er hins vegar afar háð Rússlandi og fær meðal annars 95 prósent eldsneytis síns þaðan.

Það hefur freistað þess að vera hlutlaust þegar kemur að innrás Rússa í Úkraínu.

Munkhnaran Bayarlkhagva, alþjóðastjórnmálagreinandi og fyrrverandi starfsmaður þjóðaröryggisráðs Mongólíu, segir þarlend yfirvöld líklega hafa metið það svo að afleiðingar heimsóknarinnar yrðu litlar, þar sem ríki hefðu áður látið fyrir farast að framfylgja handtökuskipunum Alþjóðlega sakamáladómstólsins.

„[Stjórnvöld í Mongólíu] hafa valið að viðhalda fyrirsjáanlegum samskiptum við Rússland og fara í krísustjórnun eftir á. Þegar allt kemur til alls þá breytir þú því ekki hvernig landið liggur,“ segir Bayarlkhagva.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×