Greint var frá því dag að mál tveggja áfengisnetverslana væru komin á borð ákærusviðs, eftir að hafa verið til rannsóknar hjá lögreglu í rúm fjögur ár. Mál þriggja annarra eru enn til rannsóknar.
Sante, sem var meðal þeirra fyrstu til að hefja netsölu með áfengi, er á meðal þeirra fimm netverslana sem eru til rannsóknar en ekki liggur fyrir hvort mál Sante sé meðal þeirra tveggja sem eru komin á næsta stig. Arnar Sigurðsson, eigandi Sante, segir í samtali við fréttastofu að í raun sé ekki neitt nýtt að frétta af málinu.
Frá einu skrifborði á annað
„Hér er einfaldlega um að ræða að rannsóknin er að færast af einu skrifborði yfir á annað og við getum auðvitað ekki láð lögreglunni yfir að þurfa að klóra sér í hausnum yfir þessum málatilbúnaði sem á uppruna hjá afdankaðri ríkisstofnun sem er að verða undir í samkeppni við aðila sem bjóða betri verð, betri vörur og betri þjónustu.“
Þá segir hann að starfsemi Sante byggi á beinni lagaheimild og því sé þetta í eðli sínu ekki áhyggjuefni. „Að auki má beinlínis fullyrða að netverslun er ekki bara verslunarmáti framtíðar heldur er hún í raun beinlínis lýðheilsumál.“
Önnur netverslunin hljóti að vera ÁTVR
Þegar Arnar talar um „afdankaða ríkisstofnun“ vísar hann til Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, sem hefur, allavega í orði, einkarétt á smásölu áfengi hér á landi.
Fyrir rétt rúmum fjórum árum kærði ÁTVR Sante til lögreglu fyrir meint brot á áfengislögum, með því að selja áfengi hér á landi í gegnum netverslun í eigu erlends félags.
Arnar segir að svo hljóti að vera að önnur netverslunin sem ákærusvið íhugar að ákæra sé sú sem rekin er af ÁTVR, enda sé hún rekin án lagaheimildar. Á vef ÁTVR er hægt að raða vörum í körfu, greiða í greiðslugátt og sækja vörurnar í hvaða verslun ÁTVR sem vill.
Arnar veit þó ekki með vissu hverjar verslunirnar eru og Vísi er ekki kunnugt um það heldur.
„Þessu til viðbótar má svo minna á að ÁTVR er svo eini aðilinn hér á landi sem selur áfengi til unglinga og viðurkennir á hverju ári í ársreikningi sínum,“ segir Arnar.
Bera fullt traust til lögreglunnar
Arnar segir að forsvarsmenn Sante beri fullt traust til lögreglunnar, sem hafi sýnt að þar á bæ skilji menn hvað felst í þrískiptingu ríkisvaldsins. „Nokkuð sem ráðherrar Framsóknarflokksins virðast ekki hafa lært í sínum stjórnmálaskóla.“
Þar vísar hann til erindis Sigurðar Inga Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra, til lögreglu um netsölu með áfengi. Í erindu var bent á að smásala áfengis sé bönnuð öðrum en ÁTVR. Innflutningur til einkanota sæti ekki takmörkunum en meta þurfi hvert tilvik fyrir sig, það er hvort starfsemi seljanda fari í reynd fram erlendis og þannig sé um innflutning að ræða þegar áfengi sé selt í netsölu.
Loks segir Arnar að forsvarsmenn Sante skilji að lögreglan hafi þurft að forgangsraða málum með þeim afleiðingum að rannsókn máls Sante tók fjögur ár.
Leiðrétting: Upphaflega var fullyrt að mál Sante væri annað málið, sem komið er á borð ákærusviðs, fyrir misskilning. Það liggur ekki fyrir að svo stöddu um hvaða netverslanir ræðir. Fréttinni hefur verið breytt í samræmi við þetta.