Erlent

Sjö látnir í á­rásum Rússa á Lviv og utan­ríkis­ráð­herrann að hætta

Hólmfríður Gísladóttir og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Íbúar í áfalli eftir árásirnar á Lviv í nótt.
Íbúar í áfalli eftir árásirnar á Lviv í nótt. Getty/Global Images Ukraine/Mykola Tys

Að minnsta kosti sjö létu lífið, þeirra á meðal þrjú börn, þegar Rússar gerðu loftárás á borgina Lviv í Úkraínu í nótt. Lviv er í vesturhluta landsins, nálægt landamærunum að Póllandi, og hefur að miklu leyti sloppið við átökin undanfarin misseri.

Borgarstjóri Lviv segir að Rússar hafi látið til skarar skríða með drónum og ofurhljóðfráum flugskeytum. 

Á meðal hinna látnu er 14 ára gömul stúlka, ungabarn og kona sem var við störf sem ljósmóðir á spítala þegar sprengjurnar féllu. 

Úkraínumenn eru enn í sárum eftir árásir gærdagsins, þegar ráðist var á herskóla í miðhluta landsins þar sem að minnsta kosti 50 létu lífið. Þá bárust einnig í morgun fregnir af árásum á höfuðborgina Kænugarð auk þess sem fimm eru særðir eftir að sprengjur féllu á íbúðarblokk í borginni Kryvyi Rih.

Ruslan Stefanchuk, forseti úkraínska þingsins, greindi frá því í morgun að utanríkisráðherrann Dmytro Kuleba hefði sagt af sér. Svo virðist sem mikil endurstokkun sé í uppsiglingu innan ríkisstjórnarinnar en fleiri ráðherra hafa sagt af sér að undanförnu.

Vólódímir Selenskí Úkraínuforseti sagði í ávarpi í gærkvöldi að breytingarnar yrðu til þess að styrkja ríkisstjórnina. Úkraínumenn þyrftu að fara sterkir inn í haustið og það kallaði á mannabreytingar.

Fregnir herma að allt að helmingi ráðherra verði skipt út en að þeir gætu fengið ný hlutverk í endurnýjaðri stjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×