Enski boltinn

Tjáði sig loks eftir að hafa hafnað Liverpool

Sindri Sverrisson skrifar
Martin Zubimendi með gullmedalíuna um hálsinn eftir frammistöðu sína í úrslitaleiknum gegn Englandi á EM í sumar.
Martin Zubimendi með gullmedalíuna um hálsinn eftir frammistöðu sína í úrslitaleiknum gegn Englandi á EM í sumar. Getty/Sebastian Frej

Spænski miðjumaðurinn Martin Zubimendi hefur nú í fyrsta sinn tjáð sig um þá ákvörðun að hafna því að fara til enska knattspyrnurisans Liverpool í sumar.

Zubimendi var helsta skotmark Liverpool í sumar en þessi 25 ára gamli leikmaður, sem varð Evrópumeistari með Spáni í sumar, ákvað að halda frekar kyrru fyrir hjá Real Sociedad. Þar hefur hann síðan eignast íslenskan liðsfélaga því spænska félagið keypti Orra Stein Óskarsson frá FC Kaupmannahöfn fyrir metverð í sögu beggja félaga.

Zubimendi, sem kom inn á fyrir meiddan Rodri í úrslitaleik EM og stóð sig með stakri prýði, ræddi við spænska blaðið Marca. Hann var meðal annars spurður um hvað félögum hans þætti um alla orðrómana í sumar, og hvort þeir hefðu sagt honum að halda kyrru fyrir:

„Vinir mínir vita það alveg að ég mun bara taka bestu ákvörðunina. Það er engin pressa á mér. Real Sociedad er líf mitt, ég held að ég hafi varið helmingi ævinnar hérna. La Real á stóran hluta í mér, þetta er líf mitt,“ sagði Zubimendi sem er samningsbundinn Real Sociedad til sumarsins 2027.

Liverpool var reiðubúið að greiða þær 60 milljónir evra sem þurfti til að fá leikmanninn og vel má vera að félagið endurnýi áhuga sinn næsta sumar ef Zubimendi spilar áfram jafnvel fyrir Real Sociedad í vetur.

Næstu leikir hans verða hins vegar í spænska landsliðsbúningnum því Spánn á fyrir höndum leiki við Serbíu og Sviss í Þjóðadeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×