Upp­gjörið og við­töl: Haukar - Sel­foss 32-20 | Haukar kjöldrógu Sel­foss

Hjörvar Ólafsson skrifar
Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði sjö mörk í þessum leik. 
Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði sjö mörk í þessum leik.  Vísir/Hulda Margrét

Nýliðar Selfoss fengu slæman skell þegar liðið mætti Haukum í fyrstu umferð Olísdeildar kvenna í handbolta að Ásvöllum í kvöld. Lokatölur í leiknum urðu 32-20 Haukum í vil. 

Haukaliðið mætti gríðarlega vel stemmt til leiks en heimakonur komust í 10-1 um miðbik fyrri hálfleiks. Staðan var síðan 17-7 í hálfleik. 

Vörn Hauka með þær Alexöndru Líf Arnarsdóttur og Söru Odden í hjartanu var gríðarlega öflug. Sara Sif Helgadóttir sem gekk til liðs við Hauka frá Val í sumar skellti svo í lás en hún varði 18 skot í leiknum.

Elín Klara Þorkelsdóttir lék vel á miðjunni hjá Haukum en hún skoraði sjö mörk auk þess að mata samherja sína af frábærum stoðsendingum. Elín Klara var markahæst í Haukaliðinu en Rakel Oddný Guðmundsdóttir kom næst með sex mörk og Sara Odden skoraði fimm mörk. 

Perla Ruth Albertsdóttir fór fyrir Selfossliðinu en hún skilaði átta mörkum á blað. Hulda Dís Þrastardóttir fylgdi þar á eftir með sínum fjórum mörkum. Cornelia Hermannsson verður ekki sökuð um tapið en hún varði 13 skot í marki Selfoss. 

Haukar sem urðu í öðru sæti deildarinnar á síðustu leiktíð og lutu í lægra haldi fyrir Val í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn ætla sér greinilega stóra hluti í vetur og sýndu þær nýliðunum enga miskunn. 

Rut í rauðum búningi Hauka.Mynd/Haukar

Rut Arnfjörð: Gríðarlega góð tilfinning

„Það er gríðarlega góð tilfinning að vera kominn aftur inn á handboltavöllinn. Þetta hafa verið krefjandi mánuðir og mikil vinna að baki við að koma mér aftur í nógu gott líkamlegt form til þess að geta spilað handbolta,“ sagði Rut Arnfjörð Jónsdóttir, sem kom til Hauka frá KA/Þór fyrir þetta keppnistímabil. 

„Ég á ennþá svolítið í land að ná mínu fyrra formi en það kemur bara hægt og rólega. Mér líður mjög vel hérna á Ásvöllum og mér líst bara mjög vel á þetta tímabil. Markmiðið er klárt, það er að berjast um þá titla sem í boði eru,“ sagði þessi frábæri leikmaður. 

„Haukaliðið hefur verið að gera góða hluti undanfarin ár og það eru hér ungir leikmenn með mikil gæði sem eiga mikla möguleika á að bæta sig. Vörnin var ógnarsterk að þessu sinni og þar fyrir aftan var Sara Sif mjög góð. Við getum tekið margt jákvætt úr þessum fyrsta leik,“ sagði hún. 

Perla Ruth: Greinilega mikið stress í liðinu

„Það var augljóst það var mikið stress í leikmönnum liðsins. Mesti skrekkurinn var farinn í seinni háfleik og þá vorum við nær því að sýna okkar rétta andlit. Við vtium það vel að það býr mun meira í þessu liði. Nú er bara að læra af þessum leik og áfram gakk,“ sagði Perla Ruth, sem var markahæst hjá Selfossi í kvöld. 

„Við höfum beðið eftir þessum leik í 15 mánuði má segia og við höfum verið að ganga í gegnum langt undirbúningstímabil þar sem við höfum verið að vinna alla leiki með 20 mörkum plús og nú þurfum við að venjast öðruvísi leikjum þar sem áskoranirnar eru öðruvísi,“ sagði Perla Ruth enn fremur. 

„Það eru bæði ungir leikmenn að stíga sín fyrstu skref í efstu deild hjá okkur og svo eru fjórir leikmenn sem fóru í aðgerðir vegna meiðsla sinna í vor. Þar á meðal er Katla María sem mun bara vaxa í sínum leik eftir því sem líða tekur á veturinn. Við höfum engar áhyggjur þrátt fyrir þessi úrslit. Við munum bæta okkur hratt og vel með hverju verkefni,“ sagði þessi fjölhæfi leikmaður. 

Perla Ruth Albertsdóttir og Hulda Dís Þrastardóttir.Vísir/Daníel

Atvik leiksins

Segja má að fyrsti stundarfjórðungur leiksins hafi verið ákveðin sýning á helstu atriðum handboltans af hálfu Hauka. Sterk vörn þar sem leikmenn Hauka spiluðu sem ein heild og Sara Sif var hluti af keðjunni. Vel uppstilltur sóknarleikur og sótt hratt þegar það átti við. 

Stjörnur og skúrkar

Sara Sif var maður leiksins en hún dró tennurnar úr Selfossliðinu með að verja hvert skotið á fætur öðru en Sara Odden átti svo góðan leik á báðum endum vallarins. Elín Klara og Rakel Oddný skiluðu sínu hlutverki afar vel af hendi .

Perla Ruth var fremst á meðal jafningja hjá Selfossliðinu en aðrir leikmenn liðsins þurfa að fylgja hennar fordæmi í næstu leikjum liðsins. Nú þarf að hrista af sér skrekkinn og sýna hvers megnugar þær eru. 

Dómarar leiksins

Árni Snær Magnússon og Þorvar Bjarmi Harðarson fengu náðugt verkefni í þessari viðureign og slógu ekki feilnótu. Af þeim sökum fá þeir átta í einkunn. 

Stemming og umgjörð

Bæði lið voru rækilega studd af stuðningsmönnum sínum og gestirnir frá Selfossi fá prik fyrir að hvetja sitt lið af miklum móð þrátt fyrir að staðan væri svört. Fínasta stemming að Ásvöllum á þessu fimmtudagskvöldi. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira