Einhver fjöldi bíla og húsbíla hefur hafnað utan vegar í rokinu og þeirra á meðal þessi húsbíll sem sést liggja á hliðinni við vegkantinn í myndbandinu hér að neðan. Ekki liggur fyrir hvort slys hafi orðið á fólki.
Slökkvilið Múlaþings sinnti einnig útkalli í kvöld á svipuðum slóðum þar sem bíll ferðamanna hafnaði á hliðinni utan vegar. Ferðamönnunum um borð tókst þó að komast úr bílnum af eigin rammleik og varð bíllinn ekki fyrir miklu tjóni.
Lögreglan á Norðurlandi eystra varaði einnig ökumenn við akstursskilyrðum um Mývatns- og Möðrudalsöræfi vegna sandbylja og roks. Í færslu á samfélagsmiðlum greindi lögreglan frá því að malbik hefði fokið af veginum vestan Jökulsár á Fjöllum við Grímsstaði. Vegagerðin merkti Biskupsháls einnig ófæran vegna lélegs skyggnis og hættu á að bílir verði fyrir skemmdum vegna sandfoks.
Björgunarsveitin Vopni á Vopnafirði var einnig kölluð út til að loka þjóðvegi 1 til norðurs vegna slyss norðan við Biskupsháls.