Menning

Verk Arn­hildar og fé­laga valið fram­lag Ís­lands á Fen­eyja­tví­æringnum í arki­tektúr

Atli Ísleifsson skrifar
Arnhildur Pálmadóttir er arkitekt, stofnandi og listrænn stjórnandi Hraunmyndana.
Arnhildur Pálmadóttir er arkitekt, stofnandi og listrænn stjórnandi Hraunmyndana. Stjr

Verkefni s.ap arkitekta, Hraunmyndanir hefur verið valið framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum í arkitektúr 2025.

 Frá þessu segir á vef stjórnarráðsins en álls bárust tólf tillögur að sýningu í opnu kalli sem auglýst var í lok apríl af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs. Þar segir að fjórar tillögur hafi verið valdar til frekari kynninga fyrir stýrihóp verkefnisins sem sá svo um að valið. 

Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í Feneyjatvíæringnum í arkitektúr með opnu kalli. Feneyjatvíæringurinn í arkitektúr er haldinn annað hvert ár, á móti tvíæringi í myndlist sem Ísland hefur tekið þátt í frá árinu 1960.

Fram kemur að í verkefninu Hraunmyndanir (e. Lavaforming) sé sögð saga framtíðarsamfélags sem þrói framsæknar lausnir í mannvirkjagerð. Hraunrennsli sé beislað, nýtt sem byggingarefni og takist með því að umbreyta staðbundinni ógn í auðlind.

Aldís Pálsdóttir

Haft er eftir Arnhildi Pálmadóttur, arkitekt, stofnanda og listrænum stjórnanda Hraunmyndana, að á tímum Snorra Sturlusonar, þegar síðast hafi gosið á Reykjanesi hafi eldgos verið framandi viðburður. 

„Í okkar sögu árið 2150 höfum við beislað hraunrennslið líkt og við gerðum með gufuaflið á 20. öld. Við vörðum söguna með atburðum sem höfðu áhrif á þróun og tækni en markmið hennar er að sýna að arkitektúr getur verið krafturinn sem endurhugsar og mótar nýja framtíð. Hraunflæði getur innihaldið nóg byggingarefni fyrir grunnstoðir heillrar borgar sem rís á nokkrum vikum án skaðlegrar námuvinnslu og óendurnýtanlegrar orkuöflunar,“ segir Arnhildur.

Tilgátuverkefni framtíðarinnar

Í tilkynningunni segir að arkitektastofan s.ap arkitektar sé þverfagleg rannsóknarstofa með áherslu á tilgátuverkefni framtíðarinnar. 

„Arnhildur Pálmadóttir er stofnandi og annar eigandi s.ap arkitekta sem sérhæfir sig í sjálfbærni og hringrás í byggingariðnaði ásamt því að vera listrænn stjórnandi Hraunmyndana. Hún er þekkt fyrir að nálgast verkefni með hugarfari frumkvöðuls og þverfaglegri nálgun. Arnhildur hefur skrifað greinar og texta sem tengjast arkitektúr, nýsköpun, tækni og sjálfbærni í hönnun og mannvirkjagerð auk þess að halda fyrirlestra um efnið.

Í verkefninu Hraunmyndanir (e. Lavaforming) er sögð saga framtíðarsamfélags sem þróar framsæknar lausnir í mannvirkjagerð.Stjr

Arnhildur er einn af eigendum dansk-íslenska arkitekta- og nýsköpunarfyrirtækisins Lendager, sem sérhæfir sig í sjálfbærni og hringrás í mannvirkjagerð. Arnhildur er tilnefnd til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir þverfaglega nálgun í sinni vinnu og áherslu á endurvinnslu byggingarefnis.

Arnhildur mun ásamt teymi s.ap arkitekta og hóp sérfræðinga og þverfaglegra samstarfsaðila sýna Hraunmyndanir (e.Lavaforming) í Feneyjum 2025 fyrir Íslands hönd.“

Áræðin og ögrandi

Í rökstuðningi stýrihóps sem sá um valið á verkefninu segir að sýningartillagan Lavaforming sé bæði áræðin og ögrandi. „Hún hefur alla burði til þess að vekja athygli á sérstöðu Íslands og hlutverki og mikilvægi arkitektúrs á tímum óvissu og áskorana með eftirminnilegum hætti. Sýningin miðlar sögu, samtíð og framtíð lands í stöðugri mótun – og hugkvæmni fólks sem sífellt þarf að aðlaga sig krefjandi aðstæðum. Hugmyndin skapar umræðu um mikilvægi nýsköpunarviljans og ímyndunaraflsins fyrir þróun samfélaga og virði þess að vísindi og listi vinni saman.“

Feneyjatvíæringurinn í arkitektúr fer fram í nítjánda sinn dagana 10. maí til 23. nóvember 2025, með foropnun 8. til 9. maí.Tvíæringurinn gegnir lykilhlutverki við að móta og dýpka umræðu um arkitektúr um allan heim og þar koma saman lykilaðilar sem vinna að lausnum á brýnustu áskorunum samtímans – hvernig við byggjum og þróum samfélög á sjálfbæran hátt. Yfirskrift tvíæringsins 2025 er Intelligens. Natural. Artificial. Collective og með sýningarstjórn fer arkitektinn og verkfræðingurinn Carlo Ratti.


Stýrihópur Feneyjatvíærings í arkitektúrs 2025:

  • Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri og formaður stýrihóps fyrir hönd Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs
  • Massimo Santanicchia, arkitekt, prófessor og deildarforseti í arkitektúr við LHÍ fyrir hönd Listaháskóla Íslands,
  • Magnea Guðmundsdóttir, arkitekt, Teiknistofan Stika fyrir hönd Arkitektafélags Íslands,
  • Daníel Jakobsson, landslagsarkitekt, Landslag fyrir hönd Félags íslenskra landslagsarkitekta,
  • Silja Ósk Leifsdóttir, innanhússarkitekt, Nordic Office of Architecture fyrir hönd Félags húsgagna- og innanhússarkitekta,
  • Sigurður Einarsson, arkitekt og hönnunarstjóri, Batteríið fyrir hönd SAMARK
  • Kristjana Rós Guðjohnsen, fagstjóri lista og skapandi greina fyrir hönd Íslandsstofu,
  • Kristrún Heiða Hauksdóttir, sérfræðingur fyrir hönd menningar- og viðskiptaráðuneytis.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×