Fótbolti

Klopp mættur aftur til Dort­mund og mun þjálfa um helgina

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Klopp verður á hliðarlínunni um helgina.
Klopp verður á hliðarlínunni um helgina. Borussia Dortmund

Jürgen Klopp var mættur á æfingasvæði Borussia Dortmund, síns fyrrum félags, á föstudag. Hann mun stýra leik um helgina en er þó ekki farinn að þjálfa hjá félaginu á nýjan leik.

Hinn 57 ára gamli Klopp stýrði Dortmund frá 2008 til 2015 og gerði liðið tvívegis að þýskum meisturum ásamt því að vinna þýska bikarinn og komast alla leið í úrslit Meistaradeildar Evrópu.

Eftir veru sína hjá Dortmund færði Þjóðverjinn sig til Liverpool þar sem hann er í guðatölu eftir að hafa loks stýrt liðinu til sigurs í ensku úrvalsdeildinni. Hann ákvað að stíga til hliðar í sumar og er nú að njóta frísins eftir að hafa þjálfað samfleytt frá 2001 til 2024.

Klopp lét þó sjá sig á æfingasvæði Dortmund í gær, föstudag, þar sem hann mun um helgina vera á hliðarlínunni á Signal Iduna Park í vináttuleik til heiðurs pólska tvíeykinu Lukasz Piszczek og Jakub Blaszczykowski. Báðir voru hluti af Dortmund-liði Klopp sem vann þýska meistaratitilinn árin 2011 og 2012.

Nuri Sahin, núverandi þjálfari Dortmund, mun einnig spila í leiknum. Þá mun Mats Hummels einnig stíga á stokk en hann gekk í raðir ítalska úrvalsdeildarfélagsins Roma á dögunum eftir að hafa spilað með Dortmund frá 2008 til 2016 og svo frá 2019 til 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×