Kristall Máni og Emil Atlason voru á toppi listans yfir markahæstu menn liðsins frá upphafi með átta mörk fyrir leikinn gegn Dönum í Víkinni. Kristall Máni gerði sér hins vegar lítið fyrir og skoraði þrennu í ótrúlegum 4-2 sigri og er nú kominn með 11 mörk í aðeins 18 leikjum fyrir U-21 árs landsliðið.
Fyrsta mark Kristals Mána gegn Dönum var jöfnunarmark Íslands en hann hirti þá boltann af Oscar Fraulo, miðjumanni Utrecht í Hollandi, og lyfti honum svo snyrtilega framhjá Filip Jörgensen, markverði Chelsea, sem stóð vaktina í marki Danmerkur.
Annað markið kom af vítapunktinum þegar Kristall Máni kom Íslandi yfir á 73. mínútu og hann fullkomnaði þrennuna aðeins tveimur mínútum síðar þegar hann fylgdi eftir föstu skoti Andra Fannars Baldurssonar sem Jörgensen hélt ekki í marki gestanna.
Kristall Máni var spurður út í metið að leik loknum. Í viðtali sínu við Vísi sagði hann:
„Hún er bara ágæt. Maður er náttúrulega búinn að vera í þessu liði lengi og stefnir auðvitað á það að fara í A-landsliðið sem fyrst. Ég fagna þessu og svo held ég bara áfram.“
Kristall Máni getur bætt enn frekar við mörkin 11 í þegar U-21 mætir Wales á þriðjudaginn kemur. Á eftir honum á listanum eru Emil með 8 mörk og svo þeir Hannes Þ. Sigurðsson og Sveinn Aron Guðjohnsen með 7 mörk hvor.