Fótbolti

Rodrygo hetja Brasilíu og vara­mennirnir gerðu sitt hjá Argentínu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rodrygo fagnar marki sínu.
Rodrygo fagnar marki sínu. EPA-EFE/Andre Coelho

Í Suður-Ameríku er undankeppni HM karla í knattspyrnu sem fram fer í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó árið 2026 löngu hafin. Rodrygo, leikmaður Real Madríd, bjargaði brasilíu gegn Ekvador á meðan Argentína lagði Síle örugglega 3-0.

Rodrygo hóf leik sem fremsti maður Brasilíu og var þeirra besti maður gegn Ekvador. Hann skoraði eina mark leiksins þegar hálftími var liðinn. Lucas Paquetá, miðjumaður West Ham United, með stoðsendinguna.

Þrátt fyrir að vera töluvert sterkari aðilinn tókst Brasilíu ekki að bæta við mörkum og lauk leiknum með 1-0 sigri heimaliðsins.

Fyrir leik Argentínu og Síle var búist við hörkuleik svo það kom ekki á óvart þegar staðan var markalaus í hálfleik. Í þeim síðari léku heimamenn hins vegar á alls oddi. Alexis Mac Allister kom Argentínu yfir eftir undirbúning Julián Alvarez eftir aðeins þriggja mínútna leik.

Á 84. mínútu skoraði svo Alvarez sjálfur með frábæru skoti í slá og inn eftir sendingu varamannsins Giovani Lo Celso. Það var svo í uppbótartíma sem Paulo Dybala, sem hafði komið inn fyrir meiddan Mac Allister, bætti þriðja markinu við eftir undirbúnings Alejandro Garnacho en hann hafði einnig komið inn af bekknum.

3-0 sigur Argentínu þýðir að þjóðin er á toppi undankeppninnar með 18 stig að loknum 7 umferðum. Þar á eftir kemur Úrúgvæ með 14 stig, Kólumbía 13 og Brasilía 10 stig.

Önnur úrslit

  • Perú 1-1 Kólumbía
  • Úrúgvæ 0-0 Paragvæ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×