Erlent

Sam­mála um að Rússar þurfi að eiga að­komu að næstu friðar­ráðstefnu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rússar áttu ekki aðkomu að friðarráðstefnunni í sumar.
Rússar áttu ekki aðkomu að friðarráðstefnunni í sumar. epa/Filip Singer

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, sagði í samtali við sjónvarpsstöðina ZDF í gær að hann og Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti væru sammála um að Rússar þyrftu að eiga aðkomu að næstu friðarráðstefnu um endalok innrásarinnar í Úkraínu.

Slík ráðstefna hefur þegar verið haldin en Rússum ekki boðið. Scholz sagði næsta víst að boðað yrði til annarar á einhverjum á einhverjum tímapunkti og þá þyrftu Rússar að eiga þar fulltrúa. 

Kanslarinn kallaði einnig eftir því að menn leituðu allra leiða til að binda enda á átökin.

Yfirvöld í Rúmeníu og Lettlandi greindu frá því um helgina að drónar frá Rússlandi hefðu flogið inn í lofthelgi ríkjanna. 

Mircea Geoana, fráfarandi aðstoðarframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði ekkert benda til þess að um væri að ræða viljaverk af hálfu Rússa en atvikin væru engu að síður óábyrg og mögulega hættuleg. 

Sex af átta drónum og tvær af þrjár eldflaugum voru skotnar niður í árás Rússa á Úkraínu í nótt, sem virðist hafa beinst gegn Kænugarði. Þá létust tveir og fjórir særðust í loftárás á Sumy aðfaranótt sunnudags. Tvö börn voru meðal særðu.

Þrjár konur létust á sunnudag eftir árásir Rússa á þorp í Donetsk og ein til viðbótar lést nærri Kharkív.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×