Fótbolti

Kane sá um bar­áttu­glaða Finna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þessi endaði þó ekki í netinu.
Þessi endaði þó ekki í netinu. Sebastian Frej/Getty Images

England lagði Finnland 2-0 í leik liðanna í B-deild Þjóðadeildar karla í knattspyrnu í kvöld. Framherjinn Harry Kane var að leika sinn 100. A-landsleik fyrir England og gerði bæði mörkin, hann er því komin með 68 landsliðsmörk.

Fyrir leik sagði Kane að Cristiano Ronaldo væri honum hvatning en Portúgalinn hefur skorað 901 mark á ótrúlegum ferli sínum. Kane sýndi að hann er ágætur í því sem hann gerir en það tók sinn tíma að brjóta ísinn á Wembley í kvöld.

Kane skoraði fyrst á 22. mínútu en flaggið fór á loft. Skömmu áður hafði Finnland verið nálægt því að skora. Það gekk illa hjá heimamönnum að skapa sér færi og öll þau skot sem rötuðu á markið varði Lukas Hradecky, staðan því markalaus í hálfleik.

Í síðari hálfleik jókst sóknarþunginn og loks braut Kane ísinn á 57. mín þegar Finnland tapaði boltanum á eigin vallarhelming. Honum tókst að koma sér í skotstöðu umkringdur leikmönnum Finnlands en þrumaði boltanum í slá og inn frá vítateigslínunni. Frábært mark og staðan orðin 1-0 Englandi í vil.

Það var svo þegar stundarfjórðungur var til leiksloka sem Kane gulltryggði sigurinn, aftur með þrumuskoti. Staðan orðin 2-0 og reyndust það lokatölur leiksins.

England byrjar veru sína í B-deild því nokkuð vel en liðið lagði Írland, lærisveina Heimis Hallgrímssonar, 2-0 í fyrsta leik. England því með fullt hús stiga, fjögur mörk skoruð og núll fengin á sig þegar tveimur umferðum er lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×