Sú er niðurstaða dómstóls í Michigan-ríki í Bandaríkjunum þar sem að Diddy mætti ekki fyrir réttinn. Í yfirlýsingu frá lögmanni hans segir að Diddy kannist ekki við manninn Derrick Lee Cardello-Smith sem hefur sakað hann um að brjóta á sér í teiti í Detroit árið 1997. Diddy „hlakki til að sjá málinu vísað frá dómi í snatri“ á áfrýjunarstigi.
Cardello-Smith afplánar dóm í fangelsi í Michigan og í yfirlýsingu lögmanns er ýmislegt tínt til að varpa rýrð á hann og hans ásakanir.
Cardello-Smith heldur því fram að Diddy hafi þegar boðið honum um tvær milljónir bandaríkjadala til að hætta við lögsóknina. Samkvæmt lögum Michigan-ríkis eru kröfur sækjanda teknar til greina ef verjandi sækir ekki þingfestingu máls.
Í umfjöllun Detroit Metro Times kemur fram að Cardello-Smith haldi því fram að þeir Diddy hafi kynnst þegar sá fyrrnefndi vann á veitingastað í nágrenni Detroit. Diddy hafi boðið honum fyrrgreint sáttarboð en Cardello-Smith hafnað því.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Diddy kemst í kast við lögin vegna kynferðisbrota eða gruns um slíkt. Fyrr á þessu ári birti CNN upptökur þar sem Diddy sést veitast að þáverandi kærustu sinni. Diddy hafði alla tíð neitað öllum ásökunum en greiddi kærustunni fyrrverandi ótilgreinda summu á fyrsta degi réttarhalda gegn honum. Myndbandið varpaði nýju ljósi á yfirlýsingar hans um sakleysi og í kjölfarið birti Diddy myndband þar sem hann biðst afsökunar á gjörðum sínum.