Dómur var kveðinn upp í dag yfir manninum sem er 23 ára lyfjafræðinemi.
Hann var ákærður fyrir tilraun til manndráps og stórfellda líkamsárás með því að hafa stungið Ingunni Björnsdóttur ítrekað og sært samstarfskonu hennar við háskólann þann 24. ágúst í fyrra.
Maðurinn hlaut svokallaðan „forvaringsdom“ eða „öryggisvistun“ sem er sérstök tegund refsivistar þar sem dómþoli er settur í fangelsi án fyrirfram ákveðins lokadags. Tilgreindur árafjöldi gildir einungis svari viðkomandi meðferð og iðrist. Þeir sem hljóta slíkan dóm eru ekki látnir lausir nema að undangengnu mati á hættunni sem stafar af þeim og geta því setið í lífstíðarfangelsi.
Tók með sér tvo hnífa á fundinn
Nemandinn sagðist fyrir dómi í ágúst iðrast einskis. Hann hefði farið á fund Ingunnar og annars kennara eftir að hafa fallið öðru sinni á prófi. Hann hafði einnig fundað með henni þegar hann féll í fyrra skiptið.
Maðurinn tók tvo hnífa með sér á fundinn. Bar hann því við að þeir ættu að veita honum einhvers konar stjórn á aðstæðum þrátt fyrir að hann ætlaði sér ekki að nota þá. Þetta hefði hann séð í teiknimyndasögum og öðrum sögum.
Þrátt hefði það hefði gremja hans aðeins aukist á fundinum. Honum hefði ekki fundist hann fá fullnægjandi skýringar eða aðstoð. Hann hafi verið ósammála Ingunni um hvar hann þyrfti að bæta sig. „Hún talaði við mig eins og barn. Með hana, það er eins og hún segi eitthvað sem ég veit að er rangt en hún talar við mig eins og ég sé óæðri,“ sagði maðurinn í dómsal.
Ingunn sagði fyrir dómi að maðurinn hefði verið ósammála þeim og að hann hefði talið að hann hefði verið felldur ranglega á prófinu. Hann hefði ekki skilið skýringar þeirra.
Nemandinn var dæmdur til að greiða Ingunni 390 þúsund norskar krónur í miskabætur og samkennara hennar 120 þúsund norskar krónur. Það svarar til fimm milljóna og einnar og hálfrar milljónar íslenskra króna.