Erlent

Sex starfs­menn UNRWA sagðir hafa verið drepnir í á­rás Ísraelshers

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fjörtíu létust í árás hersins á flóttamannabúðir í Muwasi á þriðjudag.
Fjörtíu létust í árás hersins á flóttamannabúðir í Muwasi á þriðjudag. AP/Abdel Kareem Hana

Átján eru sagðir hafa látist í árás Ísraelshers á skóla í Gasa, þar af sex starfsmenn Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA).

Skólinn var notaður sem skýli fyrir fólk á vergangi en Ísraelsher sagðist fyrir sitt leyti hafa verið að ráðast gegn stjórnstöð Hamas á lóð skólans. Gripið hefði verið til aðgerða til að draga úr mannfalli meðal almennra borgara fyrir árásina.

Philippe Lazzarini, framkvæmdastjóri UNRWA, sagði starfsmennina sem léstust hafa verið að fjölskyldum á flótta stuðning. Að minnsta kosti 220 starfsmenn stofnunarinnar hefðu nú verið drepnir á Gasa frá því að stríðið hófst.

Ellefu til viðbótar létust í árás í Khan Younis í gær, þeirra á meðal sex systkini á aldrinum 21 mánaða til 21 árs.

William Burns, forstjóri CIA, sem fer fyrir samningateymi Bandaríkjanna í viðræðum um vopnahlé, sagði um síðustu helgi að ný og ítarlegri tillaga yrði lögð fram á næstu dögum. Fulltrúar Hamas funduðu með milliliðum í Doha á dögunum, þar sem samtökin ítrekuðu vilja sinn til að undirrita samkomulag um vopnahlé sem byggði á fyrri tillögum Bandaríkjamanna, með engum nýjum skilyrðum.

Ísraelsmenn segjast hins vegar ekki munu ganga að samkomulagi nema kveðið verði á um áframhaldandi viðverðu þeirra við svokallað „Philadelphi hlið“, það er að segja landamæri Gasa og Egyptalands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×