Á sunnudag unnu Höfrungarnir endurkomusigur á Jacksonville Jaguars en fyrr sama dag var Hill handtekinn þegar hann var rétt ókominn á völlinn í aðdraganda leiksins. Myndband náðist af atvikinu sem og myndbandsupptaka lögreglunnar hefur verið gerð opinberuð. Þar sést að lögreglumennirnir sem stöðvuðu Hill beittu óþarfa valdi eftir að Hill hafði gerst sekur um umferðalagabrot.
Hill viðurkennir að það hafi verið mistök að skrúfa gluggann upp eftir að hafa rétt lögreglunni ökuskírteini sitt en lögreglumaðurinn hafi sérstaklega beðið hann um að skilja rúðuna eftir opna.
„Ég hefði getað meðhöndlað þetta betur. Hefði til að mynda getað skilið eftir rifu á glugganum. En málið með mig er að ég vil ekki athygli, ég vildi ekki sjá síma og myndavélar á lofti á þessum tímapunkti,“ sagði Hill um atvikið.
„Í enda dags er ég manneskja og verð að fylgja reglum, ég verð að gera það sama og allir aðrir hefðu gert.“
Myndband af handtökunni sýnir að lögreglan beitti óþarfa afli við að henda Hill í jörðina og handjárna ásamt því að honum var haldið niðri af lögreglumanni sem setti hné sitt í bakið á leikmanninum.
Ekki nóg með það heldur var Calais Campbell, samherji Hill, einnig handjárnaður eftir að hafa stöðvað og spurt hvað væri í gangi þegar hann sá liðsfélaga sinn liggjandi handjárnaðan í jörðinni.
„Gefur hegðun mín þeim leyfi til að berja hundinn út úr mér? Alls ekki. Ég vildi þó óska þess að ég gæti og hefði gert hlutina öðruvísi,“ sagði Hill einnig. Í lok viðtalsins bætti hann svo við að það væri deginum ljósara að lögreglumaðurinn Danny Torres ætti að vera rekinn vegna hegðunar sinnar. Hann tók þá fram að hann beri virðingu fyrir störfum lögreglunnar og ætli ekki að krjúpa í næsta leik Höfrunganna.
Hill var upphaflega stöðvaður fyrir glannalegan akstur og að vera ekki í bílbelti. Hvað leikinn varðar þá skoraði hann snertimark í naumum sigri Dolphins en í frétt The Guardian segir að atvikið hafi haft áhrif á bæði leik- og starfslið félagsins.