Innlent

Lög­regla kölluð til vegna manns með eggvopn í strætó

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögreglu bárust tvær tilkynningar um mann með eggvopn í strætó.
Lögreglu bárust tvær tilkynningar um mann með eggvopn í strætó. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust tvær tilkynningar í gærkvöldi vegna manns sem var sagður með eggvopn í strætó. Mögulega er um að ræða eina og sama manninn.

Í öðru tilvikinu fór lögregla á vettvang og fann ekki hníf á manninum en vitni sögðu hann hafa kastað honum frá sér. Maðurinn var fjarlægður úr vagninum.

Í hinu tilvikinu kom maður á lögreglustöð eftir strætóferð og greindi frá manni í strætó sem hefði verið í annarlegu ástandi, hlegið og dregið upp hníf. Engar fleiri tilkynningar bárust og lögregla fór ekki á vettvang.

Eins og fyrr segir er mögulega um að ræða einn og sama manninn en málin eru í rannsókn.

Tveir voru handteknir grunaðir um sölu og dreifingu fíkniefna en látnir lausir eftir skýrslutöku.

Þá var einn stöðvaður á 120 km/klst þar sem hámarkshraði er 80 km/klst en sá reyndist sviptur ökuréttindum og ölvaður í ofanálag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×