Erlent

Pútín segir NATÓ á leið í stríð við Rússa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Pútín segir Nató á leið í stríð við Rússa en Starmer segir Rússa geta bundið enda á átökin hvenær sem þeir vilja.
Pútín segir Nató á leið í stríð við Rússa en Starmer segir Rússa geta bundið enda á átökin hvenær sem þeir vilja. Getty

Vladimir Pútín Rússlandsforseti segir heimild til handa Úkraínumönnum til að nota langdræg vopn frá Vesturlöndum til að gera árásir á Rússland myndu jafngilda þátttöku og stríðsyfirlýsingu af hálfu Atlantshafsbandalagsins.

Rússar hafa talað um „rauða línu“ í þessu samhengi en hafa á sama tíma oftsinnis áður sakað Nató um að vera þátttakandi í stríðinu í Úkraínu, sem Rússar hófu sjálfri með innrás 24. febrúar 2022.

Stjórnvöld í Bretlandi og Bandaríkjunum hafa gert því skóna að þau séu að í huga að heimila Úkraínumönnum að nota langdræg vopn frá ríkjunum í aðgerðum sínum í Rússlandi.

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, svaraði hótunum Pútín í samtali við blaðamenn á leið í heimsókn til Washington D.C..

„Rússland hóf þetta stríð. Rússland réðist ólöglega inn í Úkraínu. Rússland getur bundið enda á þessi átök umsvifalaust. Úkraína á rétt á því að grípa til varna,“ sagði Starmer.

Guardian greindi frá því í vikunni að Bretar og Bandaríkjamenn hefðu í samráði við aðra bandamenn ákveðið að heimila Úkraínumönnum að nota svokallaðar Storm Shadow-flaugar gegn skotmörkum í Rússlandi.

Pútín sagði þetta myndu breyta eðli átakanna og þýða að Atlantshafsbandalagið; Bandaríkin og ríki Evrópu, væru komin í stríð við Rússland.

Rússar myndu grípa til viðeigandi aðgerða.

Ítarlega umfjöllun um málið má finna hjá Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×