Neytendur

Þetta kostar skyndi­biti á Ís­landi

Jón Þór Stefánsson skrifar
Ódýrasti hamborgarinn kostar 749 krónur á skyndibitastað Íslandi en dýrasta pizzan kostar 5490 krónur.
Ódýrasti hamborgarinn kostar 749 krónur á skyndibitastað Íslandi en dýrasta pizzan kostar 5490 krónur. Vísir/Sara/Hjalti

Íslendingar elska fátt meira en góðan skyndibita. En skyndibiti getur verið ansi dýr hér á klakanum.

Umræða skapaðist á dögunum um verðhækkun á skyndibitastaðnum Subway á Facebook-hópnum Vertu á verði – eftirlit með verðlagi. Bent var á að máltíð dagsins á Subway hafi hækkað úr 2199 krónum upp í 2399 krónur fái maður sér tólf tommu bát.

Máltíð dagsins er tilboð sem hefur verið í boði á Subway frá árinu 2021, og tók við af báti dagsins. Bátur dagsins gekk þannig fyrir sig að á hverjum degi vikunnar var einn ákveðinn bátur á matseðli á sérstöku tilboði. Með tilkomu máltíðarinnar bættist gos, og snakk eða kaka við.

Fyrir breytinguna kostaði bátur dagsins 699 krónur fyrir sex tommu bát en 1169 krónur fyrir tólf tommu bát. Þegar fyrst var boðið upp á máltíð dagsins árið 2021 kostaði sex tommu bátur 999 krónur og tólf tommu bátur 1399. Stór bátur kostar því þúsundkalli meira en fyrir þremur árum.

Vísir ákvað að skoða þónokkrar skyndibitakeðjur og kanna hvað þeirra helstu réttir og tilboð kosta. Miðað var við verð sem er gefið upp á vefsíðum veitingastaðanna.

Vert er að setja þann fyrirvara á að áhersla var lögð á mat fyrir einstaklinga fremur en hópa. Og máltíðir sem virðast sérstaklega ætlaðar börnum voru ekki teknar með í reikninginn. Einnig er gott að hafa í huga að þegar talað er um máltíð, sérstaklega í tengslum við hamborgara, er átt við að franskar og gos fylgi með, nema að annað komi fram.

Subway

Bátarnir á Subway kosta mismikið. Til dæmis kostar sex tommu grænmetissæla 1099 krónur, en tólf tommu 1899 krónur. Bræðingur kostar lítill 1549 krónur, en stór kostar 2349 krónur.

Líkt og áður segir kostar stór máltíð dagsins 2399 krónur, en lítil máltíð dagsins kostar 1599 krónur.

Síðan er hægt að fá Stjörnumáltíð, en þá bætast 450 krónur með bátinn og við bætist gos og annað hvort smákaka eða snakk.

Útibú Subway í Hamraborg í Kópavogi.Vísir/Vilhelm

Domino's

Lítil pizza á matseðli á Domino's kostar á bilinu 1890 til 2590 krónur. Stór pizza kostar hins vegar á bilinu 3190 til 4790 krónur.

Þó er boðið upp á ýmis tilboð. „Þín pizza“ inniheldur eina stóra pizzu með tveimur áleggstegundum á 2290 krónur. Pönnutilboð 2, þar sem þú færð pönnupizzu með tveimur áleggstegundum kostar 2290 krónur.

Þrjár pizzur af matseðli eru á ákveðnu Tríó-tilboði í hverjum mánuði. Um er að ræða stórar pizzur sem kosta 2390 krónur.

Þegar verðhækkanir eiga sér stað á Domino's rata þær gjarnan í fréttir. Sérstaklega þegar Megavikutilboð hækkar, sem kostaði síðast 1890 krónur eða Þriðjudagstilboð, sem kostar nú 1300 krónur.

Domino's starfrekur 22 staði víða um land.Vísir/Vilhelm

KFC

Á kjúklingakeðjunni KFC eru ýmsar máltíðir á boðstólnum. Sem dæmi kostar Kjúklingabitamáltíð 2149 krónur, en kjúklingaborgaramáltíð 2199 krónur, og Boxmaster zinger-máltíð 2399 krónur.

Stakur kjúklingaborgari kostar hins vegar 1539 krónur, en Boxmaster zinger stakur kostar 1704 krónur.

Kjúklingabitamáltíð kostar 2149 krónur á KFC.Vísir/Vilhelm

Búllan

Eitt frægasta skyndibitatilboð á Íslandi, tilboð aldarinnar á Hamborgarabúllu Tómasar, kostar í dag 2990 krónur. Stakur búlluborgari kostar hins vegar 2090 krónur.

Stakur kjúklingaborgari með beikoni kostar 2290 krónur, en sem máltíð 3190 krónur.

Steikarborgarinn, þar sem buffið er gert úr nautalund, kostar stakur 2790 krónur, en sem máltíð 3970 krónur.

Hamborgarabúllan við Geirsgötu í Reykjavík hefur verið starfrækt frá árinu 2004.Vísir/Vilhelm

Yuzu

Hamborgarastaðurinn Yuzu býður bæði upp á staka borgara og máltíðir. Stakir borgarar kosta á bilinu 2199 og 2399. En máltíðir kosta milli 2899 og 3299.

Metro

Heimsborgaramáltíð kostar 2499 krónur á Metro, en Heimsborgarinn minnir á Big Mac á McDonalds, forvera Metro á Íslandi. Góðborgaramáltíð kostar það sama, en góðborgarinn minnir á Quarer Pounder hjá McDonalds.

Hægt er að kaupa stakan ostborgara, sem er nokkuð minni en hinir tveir borgararnir, á 749 krónur. Það er ódýrasti staki borgarinn sem fannst á Íslandi í þessari samantekt.

Á Metro er hægt að kaupa borgara á 749 krónur.Vísir/Vilhelm

American Style

Hamborgaramáltíðir á American Style kosta á bilinu 3095 og 3795 krónur. Ódýrastur er otsborgarinn Cheese Style en tveir borgarar eru dýrastir, það eru Double Devil og Sunny Style.

Það sama er uppi á teningnum þegar stakir borgarar eru skoðaðir. Cheese Style er ódýrastur og kostar stakur 1995 en Double Devil og Sunny style eru dýrastir og kosta 2695 krónur.

American Style var stofnaður árið 1985.

Aktu Taktu

Hamborgaratilboð á Aktu taktu kostar á bilinu 2399 til 2899 krónur. Ódýrastir eru Aktu taktu-borgari og ostborgari á 2399 krónur. Ðí American dream er dýrastur og kostar 2899 krónur.

Aktu taktu-borgarinn og osborgarinn kosta stakir 1599 krónur. Ðí American drím kostar stakur 2149 krónur.

Skyndibitastaðurinn Aktu taktu við Skúlagötu.Vísir/Vilhelm

Nesti (N1)

Nesti er skyndibitastaður tengdur við fjölda N1-bensínstöðva um allt land

Osborgaramáltíð á Nesti kostar 2590 krónur. Pulled pork-borgaramáltíð, kjúklingaborgaramáltíð og vegan borgarmáltíðir er dýrastar og kosta allar 2790 krónur.

Stakur osborgari kostar 1590 krónur, en hinir þrír sem dýrastir eru kosta 1790 krónur.

Nesti býður líka upp á pizzur. Tólf tommu margarita kostar 2090 krónur, en ef hún er sextán tommu kostar hún 2290 krónur. Dýrustu pizzurnar kosta 3390 krónur þegar þær eru tólf tommu og 3690 krónur þegar þær eru sextán tommu.

Nesti er á mörgum N1-stöðvum um land allt, meðal annars í Staðarskála.Vísir/Vilhelm

Grill 66 (Olís)

Grill 66 er líkt og Nesti hjá N1, nema samtengt Olísstöðvum víða um land.

Þar er boðið upp á hamborgaramáltíðir sem innihalda hamborgara og franskar, en ekki gos. Ódýrasti borgarinn, El Reno, kostar 1795, en þeir dýrustu 2495.

Grill 66 er á mörgum Olís-stöðvum um land allt. Meðal annars á Hellu.Vísir/Vilhelm

Hlöllabátar

Heilir bátar á Hlöllabátum kosta á bilinu 2495 og 2695. Þó er hægt að fá hálfa báta, sem kosta á bilinu 1495 og 1595.

Hlölli býður upp á hádegistilboð, sem inniheldur bát og gos á 2595. Líkt og nafnið gefur til kynna er það tilboð í gildi í hádeginu.

Hlöllabátar eru á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu, meðal annars í Smáranum.Vísir/Vilhelm

Lemon

Á Lemon geta viðskiptavinir valið á milli máltíða, sem kallast kombó. Lítið kombó, sem inniheldur litla samloku og lítinn djús, kostar 2390 krónur. Milli kombó, sem inniheldur litla samloku og stóran djús, kostar 2590 krónur. Stórt kombó, sem inniheldur stóra samloku og stóran djús, kostar 2890 krónur. Þá kostar svokallað kombó mánaðarins 2390 krónur, en þá færðu fyrirframákveðna stóra samloku og stóran djús.

Stakar samlokur kosta allar jafn mikið. Litlar kosta 1390 krónur og stórar 1990 krónur.

Kombóin á Lemon kosta á bilinu 2390 krónur og 2890 krónur.Vísir/Vilhelm

Local

Á salatstaðnum Local kosta öll salöt á matseðli jafn mikið, 2890 krónur.

Mandí

Stök shawarama-vefja á Mandí kostar 1990 krónur hvort sem hún inniheldur kjúkling eða lamb. Falafel-vefja kostar 1790.

Shawarama máltíð, þar sem frönskum er bætt við, kostar 2490 ef hún er með kjúkling en 2590 ef hún er með lambakjöti.

Mandí býður upp á Shawarama-vefjur sem hafa slegið í gegn.Vísir/Vilhelm

Pizzan

Á Pizzunni kostar lítil pizza á matseðli á bilinu 2290 til 3190 krónur, en stór pizza á bilinu 3490 til 5490 krónur.

Þá býður Pizzan upp á ýmis tilboð. Þar á meðal er Hádegistilboð sem heitir Löns þar sem viðskiptavinir fá miðstærð af pizzu á matseðli á 1790 krónur. Einnig er boðið upp á Stóra klassík, en það er stór pizza með tveimur áleggstegundum á 2290 krónur.

Jafnframt er Pizzan með tilboð sem heitir Rúllettan þar eru þrjár pizzur af matseðli á sérstöku tilboði. Þar kostar pizzan 2590.

Þetta útibú Pizzunnar er í Lóuhólum í Breiðholti.Vísir/Vilhelm

Serrano

Ódýrustu burrito-vefjurnar kosta 2399, en sú dýrasta, Carnitas burrito, kostar 2649.

Hægt er að stækka vefjuna fyrir fimm hundruð krónur, og þá er hægt að bæta við nachos og annað hvort salsasósu eða ostasósu á 599 krónur.

Dirty Burger and Ribs

Á Dirty Burger and Ribs er boðið upp á hamborgaramáltíðir. Ódýrast er að fá sér ostborgara eða Pulled Pork-borgara á 2490 krónur.

Tveir mismunandi vegan-borgarar eru dýrastir og kosta 2790 krónur.

Dirty Burger and Ribs er við Austurstræti í Reykjavík.Vísir/Vilhelm

Nings

Á Nings er boðið upp á fjögur mismunandi tilboð sem kosta á bilinu 3290 til 3890 krónur. Það ódýrasta inniheldur djúpsteiktar rækjur, núðlur með eggjum og grænmeti og svínakjöt í drekasósu. Það dýrasta inniheldur djúpsteiktar rækjur, núðlur með eggjum og grænmeti, brokkolí naut, kung pao kjúkling og dumplings.

Þá eru ýmsir núðluréttir á matseðli sem kosta á milli 1790 krónur og 2590 krónur. Aðalréttir kosta á bilinu 1490 og 3290 krónur.

Matseðillinn á Nings býður upp á fjölbreytta rétti.Vísir/Vilhelm

Tokyo Sushi

Tokyo Sushi sérhæfir sig í sushi, eins og nafnið gefur til kynna. Þar er hægt að kaupa hin ýmsu Sushi-sett sem kosta á bilinu 1690 til 3470 krónur.

Þá er hægt að kaupa sushi-bita, tvo og tvo saman. Þeir kosta frá 640 krónum upp í 1160 krónur.

Einnig er hægt að kaupa ýmsar maki-rúllur, sem hægt er að kaupa ýmist í fjórum, sex, átta og tólf bitum. Ódýrustu bitarnir sem koma fjórir saman kosta 730 krónur. Þeir dýrustu sem koma tólf saman kosta 3570 krónur.

2 Guys

Á hamborgarastaðnum 2 Guys eru nokkrar hamborgaramáltíðir í boði. Sú ódýrasta, sem heitir hreinlega 2 Guys, kostar 2990. Dýrasti borgarinn heitir Hjaltason special og kostar 3690 krónur.

hamborgar á 2 Guys kosti á bilinu 2990 til 3690 krónur.Vísir/Vilhelm

Just Wingin' it

Just Wingin' it sérhæfir sig í kjúklingavængjum. Boðið upp á sex vængja tilboð, með gosi og frönskum eða grænmeti, sem kostar 2590 krónur, eða sams konar tilboð með tólf vængjum sem kostar 3300 krónur.

Sex stakir vængir kosta hins vegar 1890 krónur og tólf vængir 2700 krónur.

Joe and the Juice

Á Joe and the Juice eru ýmsar samlokur á boðstólum, en þær kosta allar 1790.

Allar samlokurnar á Joe and the Juice kosta það sama.Vísir/Vilhelm



Castello

Á pizzastaðnum Castello kosta litlar pizzur á bilinu 2190 til 3390 krónur. Stórar pizzur kosta á bilinu 3150 til 5050 krónur.

Nokkur tilboð í boði. Þar af eru tvö hádegistilboð, annars vegar er það níu tommu pizza með þremur áleggstegundum og gos á 2290 krónur. Og hins vegar sams konar tilboð nema tólf tommu pizza á 2490.

Þá er hægt að panta stóra pizzu með tveimur áleggstegundum á 2990 krónur.

Pizzastaðurinn Castello er með nokkur tilboð í boði.Vísir/Vilhelm

Ramen Momo

Á Ramen Momo er boðið upp á japanskar núðlusúpur. Staðurinn er starfræktur á tveimur stöðum. Á Tryggvagötu kosta allar súpur á matseðli 2990 krónur. Á Bankastræti kosta súpurnar á bilinu 2990 til 3290 krónur.

Ísey skyrbar

Á skyrbarnum Ísey er hægt að kaupa ýmsar skyrskálar. Það er skyr með ýmsum bragðtegundum ásamt öðrum hráefnum, líkt og nammi og ávöxtum. Allar skálarnar á matseðli kosta 1890 krónur.

Jólaleg stemming við Ísey skyrbar. Myndin er úr safni.Vísir/Egill

Saffran

Það eru margir mismunandi réttir í boði á Saffran. Stakar pizzur kosta næstum því allar 2990, nema ein, Hamingjuhumarbaka kostar 3390 krónur.

Vefjurnar á staðnum kosta allar 2190 krónur, og stök Taco 1295 krónur en þrjár Taco saman 2990 krónur. Kjúklingaréttir og salöt kosta á bilinu 2990 til 3190 krónur.

Saffran býður líka upp á máltíðir, en þá bætist gos við máltíðina í sumum tilfellum og í örðum tilfellum bætist gos og naan-brauð við. Þessar máltíðir kosta á bilinu 2290 til 3990 krónur.

Saffran opnaði nýverið stað í Fákafeni.Vísir/Vilhelm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×