Upp­gjörið: Fram náði stigi í lokin í markaleik á móti FH

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Alex Freyr Elísson tryggði Fram jafntefli í dag þegar hann skoraði sitt annað mark í leiknum.
Alex Freyr Elísson tryggði Fram jafntefli í dag þegar hann skoraði sitt annað mark í leiknum. Vísir/Diego

Fram og FH gerðu 3-3 jafntefli í Bestu deild karla í fótbolta í dag. Alex Freyr Elísson skoraði jöfnunarmarkið úr vítaspyrnu á lokamínútunum. Fram komst yfir í byrjun en FH svaraði með tveimur mörkum í uppbótatíma fyrri hálfleiks. 

Fram jafnaði í seinni en FH komst aftur yfir. Alex Freyr tryggði sínum mönnum stigið með sínu öðru marki í leiknum og Fram endaði þar með fjögurra leikja taphrinu sína. Kjartan Kári Halldórsson skoraði tvö mörk fyrir FH.

Fram tók á móti FH í fallegu veðri í Úlfarsárdalnum í dag. Bæði liðin nokkuð örugg með sín sæti fyrir skiptingu en mögulega að meiru að keppa fyrir FH sem getur sett pressu á Valsmenn í þriðja sæti deildarinnar. Bæði liðin breyttu um markmann fyrir leikinn sem verður að teljast nokkuð óvanalegt.

Fram fékk óskabyrjun þegar að Thiago skallaði boltann inn á markteig eftir hornspyrnu þar sem Djenairo Daniels var einn á auðum sjó og stýrði boltanum í netið. Eftir markið sofnaði leikurinn svolítið. Mikið var um tafir vegna meiðsla og uppbótartíminn var 6 mínútur. En það nýttu gestirni sér og skoruðu tvívegis í uppbótartímanum.

Fyrst var það Kristján Flóki Finnbogason sem stýrði fyrirgjöf í netið með hælnum og svo skoraði Kjartan Kári beint úr aukaspyrnu. Boltinn átti þó viðkomu í Guðmundi Magnússyni svo það verður annars en undirritaðs að ákveð hvort um sjálfsmark hafi verið að ræða.

Alex Freyr jafnaði svo fyrir Fram eftir að Daði náði ekki að slá fyrirgjöf frá markinu. Þetta leit ekkert sérstaklega vel út fyrir Daða sem varði þó glæsilega nokkrum mínútum síðar. Kjartan Kári kom svo FH aftur yfir með marki úr vítaspyrnu. Brynjar Gauti sparkaði niður Sigurð Bjart í teignum eftir að léleg sending félaga hans úr vörninni náði ekki að rata til hans.

Framara reyndu eftir þetta hvað þeir gátu að jafna og á lokamínútu leiks fengu þeir vítaspyrnu eftir klafs í teignum . Alex Freyr fót á punktinn og setti boltann í netið. Mikil dramatík í lok leiks og lokatölur 3-3.

Atvikið

Fram fékk vítaspyrnu undir blálokin þegar að Helgi Mikael mat það svo að brotið hefði verið á Brynjari Gauta. Sitt sýnist hverjum en Alex Frey var nákvæmlega sama, skellti sér á punktinn og skoraði. Grátlegt fyrir FH sem voru með unnin leik í höndunum.

Stjörnur og skúrkar

Kjartan Kári var alger yfirburðamaður í þessum leik að mati blaðamanns og sýndi flestar sínar bestu hliðar. Þá var Alex Freyr sterkur í liði Fram og skoraði, rétt eins og Kjartan, tvö mörk.

Varnarmenn Fram voru í miklu brasi oft á tíðum en lítið var um mikla skúrka í leiknum. Þó hefði Daði mátt gera betur í fyrstu tveimur mörkum heimamanna. Hann bjargaði sínum mönnum samt nokkrum sinnum með góðum vörslum.

Stemmning og umgjörð

Frábært veður eins og alltaf í Dalnum og voru um það bil 500 sem sáu sér fært að mæta á völlinn. Stemmningin var góð, hamborgararnir líka og þá var sérstaklega vel eftir því tekið hversu góð stemning var á meðal starfsfólks og sjálfboðaliða á vellinum. Allt saman til fyrirmyndar.

Dómarar

Helgi Mikael hélt um flautuna og fórst það ágætlega úr hendi. Báðir þjálfarar liðanna létu þó heyra í sér eftir leik að þeir væru ósáttir við vítaspyrnudómana sem fóru gegn þeim. En það er svosem ekkert nýtt undir sólinni þar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira