Fótbolti

Fiorentina þarf ekki að kaupa Albert verði hann dæmdur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Albert gekk í raðir Fiorentina á láni í sumar eftir frábært tímabil með Genoa á síðustu leiktíð.
Albert gekk í raðir Fiorentina á láni í sumar eftir frábært tímabil með Genoa á síðustu leiktíð. Fiorentina

Albert Guðmundsson var lánaður frá Genoa til Fiorentina í sumar en í samningi félaganna er ákvæði sem þýðir að Fiorentina þarf að kaupa leikmanninn að tímabilinu loknu. Sú klásúla fellur úr gildi verði Albert dæmdur fyrir kynferðisbrot.

Albert mætti fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í gær og dag, föstudag. Hann sætir ákæru fyrir nauðgun. 

Verði hann dæmdur fellur klásúla Fiorentina úr gildi. Framkvæmdastjóri félagsins, Daniele Pradé, greindi frá þessu á blaðamannafundi í dag þar sem nýir leikmenn félagsins voru til umræðu.

Pradé sagði að Albert hefði verið dýrasta fjárfesting liðsins þar sem Fiorentina borgar átta milljónir evra, 1,2 milljarð íslenskra króna, fyrir lánsamninginn. Að honum loknum ber félaginu svo að kaupa leikmanninn á alls 20 milljónir evra, þrjá milljarða íslenskra króna.

„Þetta voru erfiðustu samningaviðræðurnar. Þær hófust í janúar og lauk ekki fyrr en nú í sumar. Það (mál Alberts) er einnig ástæðan fyrir því að það tók svo langan tíma. Félagið vildi vera 100 prósent varið,“ bætti framkvæmdastjórinn við.

„Þetta snýst allt um hvenær það kemur niðurstaða í málinu, vonandi fyrir 15. júní. Ef ekki þá eigum við í góðu sambandi við Genoa og reynum að semja upp á nýtt,“ sagði hann að endingu.

Albert, sem hefur ekki enn spilað fyrir Fiorentina vegna meiðsla, neitar sök og hefur ávallt gert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×