Handbolti

Valur ekki í vand­ræðum í Vest­manna­eyjum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lovísa Thompson skoraði fimm mörk í kvöld.
Lovísa Thompson skoraði fimm mörk í kvöld. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Íslands- og bikarmeistarar Vals unnu þægilegan sigur á ÍBV í Olís-deild kvenna í handbolta í kvöld, lokatölur 16-26. Grótta fór þá í góða ferð á Selfoss.

Fyrri hálfleikur var heldur rólegur en segja má að mögnuð vörn Vals, eða hreinlega slakur sóknarleikur Eyjakvenna, hafi verið lykillinn að sigri kvöldsins. Í hálfleik var staðan 5-10 og í síðari hálfleik juku gestirnir forskotið.

Munurinn var tíu mörk þegar lokaflautan gall og Valur unnið fyrstu tvo leiki sína á meðan ÍBV vann fyrsta leik sinn en tapaði síðan í kvöld.

Valskonur deildu mörkunum systurlega á milli sín. Lovísa Thompson var markahæst með fimm en þar á eftir komu Thea Imani Sturludóttir, Þórey Anna Ásgeirsdóttir og Lilja Ágústsdóttir með fjögur mörk hver. Hjá ÍBV voru Birna Berg Haraldsdóttir og Britney Cots með fjögur mörk hvor.

Á Selfossi var Grótta í heimsókn og höfðu gestirnir betur, lokatölur 22-25. Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir skoraði sjö mörk úr jafn mörgum skotum fyrir heimaliðið. Þá skoraði Katla María Magnúsdóttir fimm mörk og Cornelia Linnea Hermansson varði 11 skot í markinu.

Hjá Gróttu voru Katrín Anna Ásmundsdóttir og Karlotta Óskarsdóttir markahæstar með sex mörk hvor. Anna Karólína Ingadóttir varði 9 skot í markinu.

Grótta hefur nú unnið einn leik og tapað einum á meðan Selfoss er án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×