Enski boltinn

„Margir sem sýndu ekki sína bestu frammi­stöðu í dag“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Arne Slot og Kostas Tsimikas niðurlútir á hliðarlínunni þegar Liverpool fékk markið á sig.
Arne Slot og Kostas Tsimikas niðurlútir á hliðarlínunni þegar Liverpool fékk markið á sig. John Powell/Liverpool FC via Getty Images

Arne Slot laut í lægra haldi í fyrsta sinn sem þjálfari Liverpool í dag þegar liðið tapaði 0-1 gegn Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni. Hann skrifar tapið á skort á einstaklingsgæðum og slakar sendingar.

Liðið vann fyrstu þrjá leiki tímabilsins undir hans stjórn og sigur í dag hefði verið besta byrjun nýs þjálfara í deildinni, en það met er enn í eigu José Mourinho sem vann fyrstu fjóra leikina sem þjálfari Chelsea árið 2004.

„Niðurstaðan er grátleg og við getum ekki verið sáttir með að hafa tapað þessum leik,“ sagði Slot eftir leik.

Liverpool var, eins og búast mátti við, meira með boltann en gekk illa að skapa hættuleg marktækifæri. Luis Díaz átti stangarskot í fyrri hálfleik en nær komust þeir ekki marki gestanna.

„Við þurfum að líta inn á við, verðum að gera betur. Alltof oft missum við boltann þegar við vorum í fínni stöðu, þetta var ekki nógu gott. Margir sem sýndu ekki sína bestu frammistöðu í dag, skortur á einstaklingsgæðum, og við verðum að passa betur upp á boltann.“

Markið skoraði varamaðurinn Callum Hudson-Odoi með laglegu skoti rétt fyrir utan teig upp úr skyndisókn. Stoðsendinguna gaf varamaðurinn Anthony Elanga.

„Ákvarðanatakan var ekki nógu góð, við framkvæmdum sóknirnar ekki vel. Vörðumst ágætlega, en þeir settu tvo snögga leikmenn inn á sem gerðu okkur erfitt fyrir. Við tókum áhættur til að sækja sigurinn og þeir refsuðu bara með mjög fínu marki,“ sagði Slot einnig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×