Fótbolti

Graham Potter verður á Hlíðar­enda í kvöld

Valur Páll Eiríksson skrifar
Potter er staddur hér á landi.
Potter er staddur hér á landi. Getty

Enski knattspyrnuþjálfarinn Graham Potter er staddur hér á landi og verður í stúkunni þegar Valur mætir KR í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld.

Potter er hér á landi vegna fyrirlesturs sem hann hélt í höfuðstöðvum KSÍ. Sá fyrirlestur var hluti af UEFA Pro námskeiði fyrir knattspyrnuþjálfara.

Til Potters sást í ræktinni í World Class í Laugum um hádegið og herma heimildir Vísis að hann verði í stúkunni þegar Valur og KR mætast í Bestu deild karla klukkan 19:15 í kvöld.

Potter náði eftirtektarverðum árangri með lið Östersund í Svíþjóð sem hann stýrði úr fjórðu deild í þá efstu þar í landi og kom liðinu svo í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar.

Eftir það stýrði hann Swansea og Brighton við góðan orðstír og kallaði stórlið Chelsea á hann sumarið 2022. Potter entist í tæpa eina leiktíð í Lundúnum og hefur verið án starfs frá því að Chelsea sagði honum upp þar síðasta vor.

Leikur Vals og KR hefst klukkan 19:15 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Stúkan gerir upp alla 22. umferðina í Bestu deild karla beint í kjölfarið.

Fylkir og Víkingur mætast einnig klukkan 19:15 og sýnt beint frá þeim leik á Stöð 2 Sport 5.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×