Fótbolti

Alisson ó­sáttur við aukið leikjaálag: „Kannski skiptir skoðun okkar ekki máli“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alisson og félagar hans í Liverpool mæta AC Milan í Meistaradeild Evrópu í kvöld.
Alisson og félagar hans í Liverpool mæta AC Milan í Meistaradeild Evrópu í kvöld. getty/John Powell

Markvörður Liverpool, Alisson, segir að ekki sé hlustað á leikmenn vegna aukins leikjaálags.

Leikjum í Meistaradeild Evrópu hefur verið fjölgað og svo gæti farið að Liverpool spili yfir sextíu leiki á þessu tímabili, komist liðið alla leið í öllum keppnum.

Alisson finnst skrítið að leikjaálagið sé sífellt aukið án samráðs við leikmenn.

„Stundum spyr enginn leikmennina hvað þeim finnst um fleiri leiki. Kannski skiptir skoðun okkar ekki máli en allir vita hvað okkur finnst um fleiri leiki. Allir eru þreyttir á því,“ sagði Alisson.

Brasilíski markvörðurinn segir enga lausn í sjónmáli.

„Í augnablikinu lítur ekki út fyrir að við séum nálægt því að finna lausn fótboltans og leikmannanna vegna,“ sagði Alisson sem spilaði 42 leiki fyrir Liverpool á síðasta tímabili þrátt fyrir að hafa verið frá í nokkrar vikur vegna meiðsla. Liverpool spilaði alls 58 leiki í öllum keppnum í fyrra.

Liverpool mætir AC Milan í fyrsta leik sínum í Meistaradeildinni í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:00 og verður sýndur beint á Vodafone Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×