Enski boltinn

Ten Hag að­varar Antony: „Verður að vinna sér inn réttinn til að spila“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Antony þarf að standa sig betur á æfingum segir Erik ten Hag.
Antony þarf að standa sig betur á æfingum segir Erik ten Hag. getty/Ash Donelon

Knattspyrnustjóri Manchester United, Erik ten Hag, segir að Antony verði að vinna fyrir því að fá tækifæri með liðinu.

United greiddi Ajax 82 milljónir punda fyrir Antony fyrir tveimur árum. Hann hefur engan veginn staðið undir verðmiðanum og skoraði aðeins eitt mark í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.

Antony hefur lítið komið við sögu það sem af er þessu tímabili en Ten Hag segir að það geti breyst. Það sé undir Antony sjálfum komið að sanna sig.

„Hann er óþolinmóður. Hann vill spila. En í toppfótbolta eru reglur. Þú velur lið sem á mesta möguleika á að vinna leikinn, bestu blönduna. Leikmenn verða að berjast fyrir sínum stöðum. Aðrir leikmenn hafa gert svo vel. Þeir skila framlagi. Hann verður að komast fram fyrir þá. Hann verður að vinna sér inn tækifæri á æfingum,“ sagði Ten Hag sem útilokaði ekki að Antony gæti fengið tækifæri þegar United mætir Barnsley í enska deildabikarnum í kvöld.

„Við æfum á hverjum degi og leikmenn verða að vinna sér inn réttinn til að spila. Þegar leikmenn gera réttu hlutina á æfingum og viðhorfið er gott vinna þeir sér inn þann rétt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×