Körfubolti

Boban kveður NBA og fer til Tyrk­lands

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Boban Marjanovic er tröllvaxinn leikmaður sem hefur heillað marga innan og utan vallar.
Boban Marjanovic er tröllvaxinn leikmaður sem hefur heillað marga innan og utan vallar. Sam Hodde/Getty Images

Miðherjinn Boban Marjanovic hefur ákveðið að flytja til Tyrklands og binda enda á níu ára langan feril í NBA deildinni.

Boban semur við tyrkneska félagið Fenerbahce, sem er ríkjandi meistari í heimalandinu og hafnaði í 4. sæti EuroLeague á síðasta tímabili.

Boban hóf atvinnumannaferilinn í Evrópu áður en hann fluttist vestur um haf árið 2015 og gekk til liðs við San Antonio Spurs. Síðan þá hefur hann leikið með Detroit Pistons, LA Clippers, Philadelphia 76ers, Dallas Mavericks og nú síðast Houston Rockets undanfarin tvö tímabil.

Hann hefur aldrei verið byrjunarliðsmaður eða sett mörg stig á töfluna en eignaðist engu að síður stóran aðdáendahóp og persónutöfrar hans heilluðu marga.

Boban og Tobias Harris eru einstakir vinir. Mitchell Leff/Getty Images

Þá vakti vinátta hans og Tobias Harris einnig mikla athygli en þeir félagar fylgdu hvorum öðrum lengi og léku saman hjá mörgum liðum.

Utan vallar lagði Boban líka leiklistina fyrir sig, kom fram í fjölmörgum auglýsingum sem er ekki algengt fyrir erlenda varamenn, og lék í bíómyndunum Hustle og John Wick 3.

Boban Marjanovic og Keanu Reeves léku í bíómyndinni John Wick 3.IMDB



Fleiri fréttir

Sjá meira


×