Erlent

Stærðarinnar sprengingar í vopnageymslu í Rúss­landi

Samúel Karl Ólason skrifar
Myndbönd af stærðarinnar sprengingum í vopnageymslunni hafa verið í dreifingum á samfélagsmiðlum í Rússlandi í nótt og í morgun.
Myndbönd af stærðarinnar sprengingum í vopnageymslunni hafa verið í dreifingum á samfélagsmiðlum í Rússlandi í nótt og í morgun.

Íbúar í grennd við stóra vopnageymslu í Tver-héraði í Rússlandi, skammt frá Belarús, vöknuðu í nótt við kröftugar sprengingar og stendur vopnageymslan í ljósum logum. Úkraínumenn eru sagðir hafa gert umfangsmikla drónaárás á vopnageymsluna, sem þeir telja að hafi hýst eldflaugar og önnur hergögn frá Norður-Kóreu.

Vopnageymslan var nærri bænum Toropets í Rússlandi og hafa byggðir nærri henni verið rýmdar, að sögn ríkisstjóra héraðsins. Hann heldur því fram að allir drónar hafi verið skotnir niður og að brak frá þeim hafi kveikt elda sem ollu sprengingunum.

Engar fregnir hafa borist af mannfalli, enn sem komið er.

Í frétt Reuters segir að ríkismiðlar Rússlands hafi greint frá því árið 2018 að umrædd vopnageymsla hafi verið stækkuð og hún útbúin fyrir eldflaugar, sprengiflaugar og sprengiefni og átti vopnageymslan að þola alls konar árásir.

Upprunalega sprengingin og seinni sprengingar voru svo stórar að íbúar á svæðinu spurðu á samfélagsmiðlum hvort að kjarnorkuvopni hafi mögulega verið beitt.

Úkraínska fréttaveitan RBC hefur eftir heimildarmönnum sínum að leyniþjónusta úkraínska hersins hafi komið að árásinni. Þá segir miðillinn að Úkraínumenn hafi notast við rúmlega hundrað sjálfsprengidróna við árásina á vopnageymsluna, sem er í um 500 kílómetra fjarlægð frá landamærum Úkraínu.

Varnarmálaráðuneyti Rússlands gaf út í morgun að 54 úkraínskir drónar hefðu verið skotnir niður yfir fimm héruðum Rússlands í nótt. Bryansk, Kúrsk, Oryol, Smolensk og Belgorod, samkvæmt frétt BBC. Tver-hérað er ekki nefnt í þessari yfirlýsingu.

Yfirvöld á svæðinu hafa sagt íbúum að birta ekki myndefni af vopnageymslunni.

Hér að neðan má sjá kort af Toropets en við hlið bæjarins má sjá vopnageymsluna sem um ræðir.


Tengdar fréttir

Microsoft segir rússneskt tröllabú á bak við falsáróður um Harris

Rannsóknir Microsoft hafa leitt í ljós að „tröllabúið“ Storm-1516, rússneskur hópur tölvuþrjóta hliðhollur stjórnvöldum í Moskvu, sé að baki myndskeiði þar sem Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, er sökuð um að hafa ekið á stúlku og svo á brott.

Stækkar herinn í þriðja sinn

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, gaf í gær út þá skipun að her ríkisins yrði stækkaður. Atvinnuhermönnum yrði fjölgað um 180 þúsund og yrðu því alls ein og hálf milljón. Skipunin á að taka gildi þann 1. desember en þetta er í þriðja sinn frá því innrás Rússa í Úkraínu hófst í febrúar 2022 sem Pútín gefur út skipun sem þessa.

Rýnt í stöðuna í Úkraínu: Rússar hefja gagnsókn í Kúrsk

Á meðan Rússar sækja fram í austurhluta Úkraínu og reyna að ná tökum á öllu Donbas-svæðinu, hafa Úkraínumenn sótt fram í Kúrsk-héraði í Rússlandi. Hægt hefur á sóknum Rússa í Donbas en úkraínskir hermenn eru í mjög varhugaverðri stöðu þar, vegna yfirburða Rússa varðandi mannafla og skotfæri fyrir stórskotalið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×