Og já…. líka að vera svolítið feimin.
Því þetta eru vikurnar þar sem við segjum minna en hlustum meira. Sama hvað síðar verður. Þegar við erum almennilega búin að koma okkur fyrir á þessum nýja og spennandi stað.
Það eru nokkur góð ráð sem virka alltaf. Þótt þau séu stundum út fyrir þægindarammann. Til dæmis að reyna að vera dugleg að biðja samstarfsfólk um aðstoð og spyrja spurninga. Það bæði eflir okkur í nýjum verkefnum en er líka tækifæri til að kynnast fólkinu.
Við föllum oft í þá gryfju að vera rosa upptekin í hádeginu fyrstu vikurnar. Förum út og borðum annars staðar. Jafnvel bara rúntum og kaupum okkur pylsu í lúgusjoppu. Til að yfirstíga feimnina og vandræðaganginn sem fyrst er samt betra að stíga skrefið og spyrja samstarfsfólkið: Hvar ætlið þið að borða í hádeginu? Er í lagi að ég komi líka….?
Þótt það hljómi vandræðalega.
Þrjú ágætis ráð eru síðan nefnd í umfjöllun FastCompany sem hægt er að styðjast við:
1. Að tala við vin
Oft finnst okkur eins og allir séu svolítið að mæla okkur út og meta í nýju vinnunni. Staðreyndin er hins vegar sú að við erum oft ekki dómbær á eigin aðstæður. Þá er gott að ræða hlutina aðeins við vin, sem auðvitað getur líka verið makinn. Samtal við góðan vin fær okkur oft til að sjá hlutina í réttari ljósi.
2. Sættu þig við aðstæður
Þetta á sérstaklega við um fólk sem er að klífa upp metorðastigann og er komið í nýja stjórnendastöðu. Fylgifiskurinn er oftar en ekki sá að þegar svo er, finnst fólki það hafa meira leyfi til að meta þig og mæla í bak og fyrir. Hvort þú valdir starfinu, kunnir eitthvað og svo framvegis. Horfðu á þetta sem tímabundna stöðu, samhliða því að láta verkin tala.
3. Hvað er það versta sem getur gerst?
Þegar þú ert að upplifa augnablik þar sem þig kannski langar til að kasta einhverju inn í hópumræðuna, eða jafnvel að slá á létta strengi og svo framvegis, en finnur að þú bakkar og ert við það að hætta við er ágætt að hugsa með okkur: Hvað er það versta sem getur gerst? Því þótt við yrðum svolítið rjóð í kinnum eða fólk veltist ekki um af hlátri yfir brandaranum, þá eru allar líkur á því að í stóru myndinni væri það bara jákvætt fyrir þig að þora….