Uppgjörið: Fjölnir - Afturelding 0-0 | Afturelding fer aftur á Laugardalsvöll Ágúst Orri Arnarson skrifar 23. september 2024 15:02 Leiknum lauk með miklum varnarsigri Aftureldingar og markalausu jafntefli. @Grafarvogsbúar Afturelding er á leið á Laugardalsvöll í úrslitaleik gegn Keflavík um sæti í Bestu deildinni. Það varð ljóst eftir sigur í undanúrslitaeinvígi gegn Fjölni. Fyrri leikinn vann Afturelding 3-1 á heimavelli, leikur dagsins endaði með markalausu jafntefli. Eins og búast mátti við út frá stöðunni í einvíginu lögðu Fjölnismenn mikið púður í sóknarleikinn og Afturelding meira í að verja forystuna. Þetta bauð upp á áhugaverðan fyrri hálfleik. Fjölnismenn með marga menn fram á við og alltaf alveg við það að komast í færi en sjaldan í dauðaséns. Jökull Andrésson í marki Aftureldingar átti stóran þátt í því, gríðarlega öflugur að grípa fyrirgjafir og loka á skot. Varði stórvel í hættulegasta færi fyrri hálfleiks, sem Jónatan Ingi fékk eftir lúmska stungusendingu. Afturelding átti líka fjölmargar hættulegar skyndisóknir en Fjölnismenn björguðu sér alltaf fyrir horn. Eftir mjög fjörugar fjörutíu voru bæði lið orðin þreytt og pirruð á að takast ekki að skora. Menn tóku það út á hvorum öðrum og harkan færðist upp á næsta stig. Harkan og ákefðin fylgdi mönnum hins vegar ekki út í seinni hálfleik, sem var merkilega bragðdaufur miðað við hversu mikið var undir. Fjölnir mun meira með boltann en gekk skelfilega að skapa sér færi gegn ellefu varnarmönnum Aftureldingar. Þrátt fyrir nokkrar breytingar á Fjölnisliðinu breyttist lítið á vellinum. Lokamínútur leiksins fjöruðu út með fáum uppákomum, leik- og stuðningsmenn Fjölnis algjörlega sprungnir eftir strembið tímabil. Markalaust jafntefli niðurstaðan. Atvik leiksins Það er fátt sem stendur upp úr. Sem er ótrúlegt í svo mikilvægum leik. Seinni hálfleikur var í raun steindauður. Fjölnismenn fengu ekki eitt gult spjald, sem segir mikið um ákefðina í þeim. Stjörnur og skúrkar Jökull Andrésson í markinu, mikilvægastur í liði Aftureldingar í þessum leik. Ótrúlega öruggur í öllum aðgerðum. Sævar Atli með frábæra innkomu í stað Elmars Kára. Hættulegur sóknarlega og fórnaði sér fyrir málstaðinn varnarlega, bókstaflega, kom í veg fyrir þrumuskot á markið með hausunum. Miðjumönnum Aftureldingar má líka hrósa mikið, skrefi á undan Fjölnismönnum allan tímann. Í liði Fjölnis átti engin hræðilegan dag, en á sama tíma sýndi engin sitt allra besta. Sigurvin og Dagur Ingi komust aldrei í takt við leikinn. Máni Austmann ógnaði lítið fram á við. Margt sem hefði mátt betur fara. Stemning og umgjörð Mæting var merkilega góð miðað við leiktíma, glampandi sól líka í Grafarvoginum. Mikilvægi leiksins sást þó ekki á stemningunni. Heimamenn höfðu lágt og létu gestina um trommusláttinn. Meira að segja á lokamínútum þegar leikurinn var að fjara út og Fjölnir við það að enda tímabilið, heyrðist ekkert í stúkunni. Umgjörðin alveg ágæt, grillið gott en gosið mætti kæla. Dómarar [8] Vilhjálmur Alvar með flautuna. Gylfi Már Sigurðsson og Bryngeir Valdimarsson með flöggin. Pétur Guðmundsson sá fjórði. Eitt gult spjald sem gleymdist, þegar Arnór Gauti traðkaði á Baldvini, en þeir virtust hreinlega ekki sjá það gerast. Lítið út á það að setja þá. Að öðru leiti vel haldið utan um allt. Viðtöl „Nú ætlum við að klára dæmið“ Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar.vísir „Mikið hrós á strákana, stórkostlegur varnarleikur. Eitt færi í fyrri hálfleik sem Jökull bjargaði, að öðru leiti vörðumst við frábærlega. Það er kúnst að geta gert það,“ sagði Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar. „Barátta hjá strákunum fyrst og fremst. Menn að vinna fyrir hvorn annan, frábær liðsheild og trú á það sem við erum að gera. Þetta er lang fallegasta 0-0 jafntefli sem ég hef séð,“ hélt hann svo áfram. Afturelding slapp spjaldalaust frá leiknum, sem er í raun ótrúlegt í svo mikilvægum leik. Það þýðir að allir leikmenn liðsins verða með á Laugardalsvelli. Líka auðvitað Elmar Kári Enesson Gocic sem fékk rautt í fyrri leiknum gegn Fjölni. „Talandi um kúnst einmitt. Að ná að verjast svona án þess að fá spjöld. Það þýddi líka að við vorum aðeins aftar á vellinum, ekki að hleypa þeim á ferðina og við gerðum það frábærlega. Alveg geggjað að fá alla með í úrslitaleikinn. Frábær stuðningur líka í dag, við áttum gjörsamlega stúkuna. Frábært að sjá fjölmenni á útivelli, ég vil sjá ennþá fleiri á Laugardalsvelli.“ Hann var þá spurður út í mikilvægi markmannsins, Jökuls Andréssonar, sem kom til liðsins fyrir lokahnykk tímabilsins. „Staðið sig frábærlega, bæði inni á vellinum að sjálfsögðu og svo talar hann mikið og stýrir. Búinn að vera gjörsamlega geggjaður og við erum í skýjunum með hann. Er úr Mosó, féll strax inn í hópinn, þekkir alla og innkoman hefur bara verið stórkostleg.“ Framundan er úrslitaleikur gegn Keflavík, sem Afturelding tapaði tvívegis fyrir í sumar. Hvernig ætlar liðið að sækja sigur? „Ég er bara ekki byrjaður að spá í því einu sinni. Það fór allur fókus á þennan leik en það skiptir svosem ekki máli hver andstæðingurinn er. Ef við gerum það sem við höfum verið að gera í síðustu leikjum, búnir að vera frábærir, þá eru okkar allir vegir færir.“ Afturelding býr líka yfir reynslu, biturri reynslu, eftir að hafa tapað úrslitaleiknum í fyrra gegn Vestra. „Bæði og. Frábær dagur og skemmtilegt að taka þátt í þessu. Ég held að við lærum af reynslunni, nú hefur meirihlutinn prófað að spila á Laugardalsvelli. Ég held að það hjálpi okkur, að hafa gengið í gegnum þetta sem félag og lið, ég horfi frekar á það þannig að það hafi hjálpað okkur að vera þarna í fyrra. Nú ætlum við að klára dæmið,“ sagði Magnús að lokum. „Við áttum bara í erfiðleikum með opna þá“ Úlfur Arnar, þjálfari Fjölnis. Mynd tekin fyrr í sumar. Bros var hvergi sjáanlegt á vörum Fjölnismanna eftir leikinn í dag.grafarvogsbúar / facebook Úlfur Arnar Jökulsson, þjálfari Fjölnis, var gríðarlega vonsvikinn eftir að hafa endað annað tímabilið í röð á því að detta út í undanúrslitum. „Mjög sár og svekktur. Leikmyndin var nákvæmlega eins og ég bjóst við, þeir myndu leggjast neðarlega og verja forskotið. Þessi leikur í dag súmmerar svolítið lokasprettinn hjá okkur, liðin hættu að vanmeta okkur og fóru að verjast aftar og þéttar á móti okkur. Við höfum verið í vandræðum með að leysa það þegar liðin mæta með svona lága blokk. En mesta svekkelsið í sumar er að hafa ekki náð fyrsta sætinu.“ Undirritaður spurði þá hvort liðið hafi sýnt næga ákefð og vilja í að sækja sigur í seinni hálfleik. Því dæmi til stuðnings var nefnt að hvorugt lið fékk gult spjald í seinni hálfleik, sem er vel af sér vikið hjá Aftureldingu en bendir til þess að leikmenn Fjölnis hafi verið andlausir og skort baráttuanda. „Við erum með boltann allan seinni hálfleikinn, sækir ekki gul spjöld á meðan. Við áttum bara í erfiðleikum með opna þá og þegar við sköpum færi nýtum við þau ekki.“ Þá færðist talið að stuðningsmönnum Fjölnis, sem létu lítið í sér heyra á mikilvægasta leik tímabilsins. „Nei ef maður á að vera alveg heiðarlegur, þá heyrðist miklu meira í Aftureldingu og mér finnst vera smá stemningsleysi fyrir liðinu okkur. Þetta er ungt og efnilegt lið, rosalega mikið af ungum leikmönnum sem fengu að eiga sviðið í sumar. Maður hefði viljað, á mörgum leikjum, fá fleira fólk á völlinn og meiri stemningu og stuðning.“ Þjálfarinn var þá spurður út í leikmannahóp liðsins og framtíðaráform Fjölnis. „Það er áhugi á okkar leikmönnum en þeir eru á samning þannig að það er erfitt að segja til um hvað verður. Við skoðum leikmannamálin og höldum áfram þeirri stefnu að búa til, þróa og þjálfa okkar eigin leikmenn. Höldum því áfram og höldum áfram að velja vel fullorðnu strákana sem koma inn í kringum þá. Hópurinn í dag er gríðarlega þéttur, flott blanda af ungum og eldri mönnum. Þéttasti og flottasti hópur sem ég hef þjálfað nokkurn tímann,“ sagði Úlfur að lokum. Lengjudeild karla Besta deild karla Fjölnir Afturelding Íslenski boltinn
Afturelding er á leið á Laugardalsvöll í úrslitaleik gegn Keflavík um sæti í Bestu deildinni. Það varð ljóst eftir sigur í undanúrslitaeinvígi gegn Fjölni. Fyrri leikinn vann Afturelding 3-1 á heimavelli, leikur dagsins endaði með markalausu jafntefli. Eins og búast mátti við út frá stöðunni í einvíginu lögðu Fjölnismenn mikið púður í sóknarleikinn og Afturelding meira í að verja forystuna. Þetta bauð upp á áhugaverðan fyrri hálfleik. Fjölnismenn með marga menn fram á við og alltaf alveg við það að komast í færi en sjaldan í dauðaséns. Jökull Andrésson í marki Aftureldingar átti stóran þátt í því, gríðarlega öflugur að grípa fyrirgjafir og loka á skot. Varði stórvel í hættulegasta færi fyrri hálfleiks, sem Jónatan Ingi fékk eftir lúmska stungusendingu. Afturelding átti líka fjölmargar hættulegar skyndisóknir en Fjölnismenn björguðu sér alltaf fyrir horn. Eftir mjög fjörugar fjörutíu voru bæði lið orðin þreytt og pirruð á að takast ekki að skora. Menn tóku það út á hvorum öðrum og harkan færðist upp á næsta stig. Harkan og ákefðin fylgdi mönnum hins vegar ekki út í seinni hálfleik, sem var merkilega bragðdaufur miðað við hversu mikið var undir. Fjölnir mun meira með boltann en gekk skelfilega að skapa sér færi gegn ellefu varnarmönnum Aftureldingar. Þrátt fyrir nokkrar breytingar á Fjölnisliðinu breyttist lítið á vellinum. Lokamínútur leiksins fjöruðu út með fáum uppákomum, leik- og stuðningsmenn Fjölnis algjörlega sprungnir eftir strembið tímabil. Markalaust jafntefli niðurstaðan. Atvik leiksins Það er fátt sem stendur upp úr. Sem er ótrúlegt í svo mikilvægum leik. Seinni hálfleikur var í raun steindauður. Fjölnismenn fengu ekki eitt gult spjald, sem segir mikið um ákefðina í þeim. Stjörnur og skúrkar Jökull Andrésson í markinu, mikilvægastur í liði Aftureldingar í þessum leik. Ótrúlega öruggur í öllum aðgerðum. Sævar Atli með frábæra innkomu í stað Elmars Kára. Hættulegur sóknarlega og fórnaði sér fyrir málstaðinn varnarlega, bókstaflega, kom í veg fyrir þrumuskot á markið með hausunum. Miðjumönnum Aftureldingar má líka hrósa mikið, skrefi á undan Fjölnismönnum allan tímann. Í liði Fjölnis átti engin hræðilegan dag, en á sama tíma sýndi engin sitt allra besta. Sigurvin og Dagur Ingi komust aldrei í takt við leikinn. Máni Austmann ógnaði lítið fram á við. Margt sem hefði mátt betur fara. Stemning og umgjörð Mæting var merkilega góð miðað við leiktíma, glampandi sól líka í Grafarvoginum. Mikilvægi leiksins sást þó ekki á stemningunni. Heimamenn höfðu lágt og létu gestina um trommusláttinn. Meira að segja á lokamínútum þegar leikurinn var að fjara út og Fjölnir við það að enda tímabilið, heyrðist ekkert í stúkunni. Umgjörðin alveg ágæt, grillið gott en gosið mætti kæla. Dómarar [8] Vilhjálmur Alvar með flautuna. Gylfi Már Sigurðsson og Bryngeir Valdimarsson með flöggin. Pétur Guðmundsson sá fjórði. Eitt gult spjald sem gleymdist, þegar Arnór Gauti traðkaði á Baldvini, en þeir virtust hreinlega ekki sjá það gerast. Lítið út á það að setja þá. Að öðru leiti vel haldið utan um allt. Viðtöl „Nú ætlum við að klára dæmið“ Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar.vísir „Mikið hrós á strákana, stórkostlegur varnarleikur. Eitt færi í fyrri hálfleik sem Jökull bjargaði, að öðru leiti vörðumst við frábærlega. Það er kúnst að geta gert það,“ sagði Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar. „Barátta hjá strákunum fyrst og fremst. Menn að vinna fyrir hvorn annan, frábær liðsheild og trú á það sem við erum að gera. Þetta er lang fallegasta 0-0 jafntefli sem ég hef séð,“ hélt hann svo áfram. Afturelding slapp spjaldalaust frá leiknum, sem er í raun ótrúlegt í svo mikilvægum leik. Það þýðir að allir leikmenn liðsins verða með á Laugardalsvelli. Líka auðvitað Elmar Kári Enesson Gocic sem fékk rautt í fyrri leiknum gegn Fjölni. „Talandi um kúnst einmitt. Að ná að verjast svona án þess að fá spjöld. Það þýddi líka að við vorum aðeins aftar á vellinum, ekki að hleypa þeim á ferðina og við gerðum það frábærlega. Alveg geggjað að fá alla með í úrslitaleikinn. Frábær stuðningur líka í dag, við áttum gjörsamlega stúkuna. Frábært að sjá fjölmenni á útivelli, ég vil sjá ennþá fleiri á Laugardalsvelli.“ Hann var þá spurður út í mikilvægi markmannsins, Jökuls Andréssonar, sem kom til liðsins fyrir lokahnykk tímabilsins. „Staðið sig frábærlega, bæði inni á vellinum að sjálfsögðu og svo talar hann mikið og stýrir. Búinn að vera gjörsamlega geggjaður og við erum í skýjunum með hann. Er úr Mosó, féll strax inn í hópinn, þekkir alla og innkoman hefur bara verið stórkostleg.“ Framundan er úrslitaleikur gegn Keflavík, sem Afturelding tapaði tvívegis fyrir í sumar. Hvernig ætlar liðið að sækja sigur? „Ég er bara ekki byrjaður að spá í því einu sinni. Það fór allur fókus á þennan leik en það skiptir svosem ekki máli hver andstæðingurinn er. Ef við gerum það sem við höfum verið að gera í síðustu leikjum, búnir að vera frábærir, þá eru okkar allir vegir færir.“ Afturelding býr líka yfir reynslu, biturri reynslu, eftir að hafa tapað úrslitaleiknum í fyrra gegn Vestra. „Bæði og. Frábær dagur og skemmtilegt að taka þátt í þessu. Ég held að við lærum af reynslunni, nú hefur meirihlutinn prófað að spila á Laugardalsvelli. Ég held að það hjálpi okkur, að hafa gengið í gegnum þetta sem félag og lið, ég horfi frekar á það þannig að það hafi hjálpað okkur að vera þarna í fyrra. Nú ætlum við að klára dæmið,“ sagði Magnús að lokum. „Við áttum bara í erfiðleikum með opna þá“ Úlfur Arnar, þjálfari Fjölnis. Mynd tekin fyrr í sumar. Bros var hvergi sjáanlegt á vörum Fjölnismanna eftir leikinn í dag.grafarvogsbúar / facebook Úlfur Arnar Jökulsson, þjálfari Fjölnis, var gríðarlega vonsvikinn eftir að hafa endað annað tímabilið í röð á því að detta út í undanúrslitum. „Mjög sár og svekktur. Leikmyndin var nákvæmlega eins og ég bjóst við, þeir myndu leggjast neðarlega og verja forskotið. Þessi leikur í dag súmmerar svolítið lokasprettinn hjá okkur, liðin hættu að vanmeta okkur og fóru að verjast aftar og þéttar á móti okkur. Við höfum verið í vandræðum með að leysa það þegar liðin mæta með svona lága blokk. En mesta svekkelsið í sumar er að hafa ekki náð fyrsta sætinu.“ Undirritaður spurði þá hvort liðið hafi sýnt næga ákefð og vilja í að sækja sigur í seinni hálfleik. Því dæmi til stuðnings var nefnt að hvorugt lið fékk gult spjald í seinni hálfleik, sem er vel af sér vikið hjá Aftureldingu en bendir til þess að leikmenn Fjölnis hafi verið andlausir og skort baráttuanda. „Við erum með boltann allan seinni hálfleikinn, sækir ekki gul spjöld á meðan. Við áttum bara í erfiðleikum með opna þá og þegar við sköpum færi nýtum við þau ekki.“ Þá færðist talið að stuðningsmönnum Fjölnis, sem létu lítið í sér heyra á mikilvægasta leik tímabilsins. „Nei ef maður á að vera alveg heiðarlegur, þá heyrðist miklu meira í Aftureldingu og mér finnst vera smá stemningsleysi fyrir liðinu okkur. Þetta er ungt og efnilegt lið, rosalega mikið af ungum leikmönnum sem fengu að eiga sviðið í sumar. Maður hefði viljað, á mörgum leikjum, fá fleira fólk á völlinn og meiri stemningu og stuðning.“ Þjálfarinn var þá spurður út í leikmannahóp liðsins og framtíðaráform Fjölnis. „Það er áhugi á okkar leikmönnum en þeir eru á samning þannig að það er erfitt að segja til um hvað verður. Við skoðum leikmannamálin og höldum áfram þeirri stefnu að búa til, þróa og þjálfa okkar eigin leikmenn. Höldum því áfram og höldum áfram að velja vel fullorðnu strákana sem koma inn í kringum þá. Hópurinn í dag er gríðarlega þéttur, flott blanda af ungum og eldri mönnum. Þéttasti og flottasti hópur sem ég hef þjálfað nokkurn tímann,“ sagði Úlfur að lokum.
Leikjahæst frá upphafi: „Loksins núna að hætta að gráta, þannig ekki láta mig byrja aftur“ Körfubolti
Leikjahæst frá upphafi: „Loksins núna að hætta að gráta, þannig ekki láta mig byrja aftur“ Körfubolti