Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar. Þar kemur fram að líkanreikningar sem byggðir á gögnum GPS-mæla sýni að kvikusöfnun undir Svartsengi hafi haldið áfram á svipuðum hraða síðustu vikur.
„Samkvæmt mælingum á landrisi og áætlun á hraða kvikusöfnunar svipar þróunin til fyrri atburða á svæðinu.
Myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands hefur unnið úr gögnum sem sérfræðingar Eflu söfnuðu í drónaflugi yfir gosstöðvarnar þann 11. september. Gögnin sýna að hraunbreiðan sem myndaðist í síðasta eldgosi (22. ágúst - 5. september) var 61.2 milljón m3 og 15.8 km2 að flatarmáli. Gögnin sýna að síðasta gos var það stærsta á Sundhnúksgígaröðinni frá desember 2023. Þykkasti hluti hraunbreiðunnar er staðsettur í kringum gíginn sem var virkur lengst af.

Jarðskjálftavirkni hefur verið lítil síðustu tvær vikur við Sundhnúksgígaröðina. Nokkur virkni hefur þó verið í vestanverðu Fagradalsfjalli á 6-8 km dýpi frá því að eldgosi lauk þann 5. september. Einnig hefur verið töluverð virkni í Trölladyngju síðustu daga. Flestir skjálftanna á svæðinu eru litlir en sá stærsti mældist M3.0 að stærð þann 22. september rétt austan við Trölladyngju. Engin aflögun mælist á svæðinu við Trölladyngju,“ segir í tilkynningunni.