Lögreglan í Helsinki segir að um tólf manns hafi verið handteknir við þinghúsið en tilkynning um uppákomuna barst um klukkan átta í morgun að staðartíma, fimm að íslenskum tíma.
Finnsku umhverfisverndarsamtökin Elokapina og sænsku samtökin Endurheimtum votlendi lýstu yfir ábyrgð á gjörningnum og segja að tíu manns á vegum þeirra hafi skvett vatnsleysanlegri málningu á þinghúsið, að því er kemur fram í frétt finnska ríkisútvarpsins YLE.
Elokapina eru finnsk systursamtök breska aðgerðahópsins Útrýmingaruppreisnarinnar (e. Excinction Rebellion) sem hefur vakið athygli fyrir beinskeyttar mótmælaaðgerðir á undanförnum árum.

Með gjörningnum vildu samtökin vekja athygli á móvinnsla finnska ríkisfyrirtækisins Neova í Svíþjóð sem þau segja hræðilega óloftslagsvæna. Þau krefjast þess að finnsk stjórnvöld bindi enda á vinnsluna.
Neova hóf brennslu á mó til orkuframleiðslu aftur til þess að bregðast við samdrætti í innflutningi á rússneskum viði eftir innrás Rússa í Úkraínu árið 2022.
Fram að því hafði brennsla á mó dregist verulega saman í samræmi við loftslagsstefnu finnskra stjórnvalda um að draga úr notkun mós um helming fyrir 2030. Þáverandi ríkisstjórn sagði nauðsynlegt að fasa út mó í ljósi þess að brennsla á honum til raforkuframleiðslu losi meiri koltvísýring en á kolum.
Mór, sem er jarðlag úr jurtaleifum sem myndast í votlendi, var notaður sem eldsneyti á Íslandi um margra alda skeið.

