Palmer skoraði fernu í fyrri hálf­leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Cole Palmer við það að skora eitt af fjórum mörkum sínum.
Cole Palmer við það að skora eitt af fjórum mörkum sínum. EPA-EFE/TOLGA AKMEN

Chelsea lagði Brighton & Hove Albion í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu í fjörugum leik á Brúnni.

Fyrir leikinn höfðu Brighton ekki tapað leik og komust gestirnir yfir snemma leiks þökk sé marki Georginio Rutter eftir undirbúning Carlos Baleba. Heimamenn létu það ekki á sig fá og á 21. mínútu hafði Cole Palmer jafnað metin. Nicolas Jackson með stoðsendinguna.

Aðeins þremur mínútum síðar hafði Jadon Sancho komið knettinum í netið en markið dæmt af vegna rangstöðu. Ekki löngu síðar fékk heimaliðið vítaspyrnu, Palmer fór á punktinn og kom Chelsea yfir.

Þessi skemmtilegi leikmaður fullkomnaði svo þrennu sína þegar rétt rúmlega hálftími var liðinn og staðan orðin 3-1. Baleba minnkaði muninn í 3-2 aðeins þremur mínútum síðar en Palmer bætti fjórða marki sínu við eftir undirbúning Sancho á 41. mínútu og heimamenn 4-2 yfir í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var ekki alveg sama flugeldasýningin en heimaliðið bætti þó við fimmta markinu á 69. mínútu. Það skoraði bakvörðurinn Marc Cucurella eftir undirbúning varamannsins Pedro Neto.Markið stóð þó ekki þar sem Cucurella var dæmdur rangstæður í aðdraganda þess.

Á endanum var ekkert skorað í síðari hálfleik og Chelsea vann 4-2 sigur sem þýðir að liðið er með 13 stig að loknum sex umferðum, aðeins stigi minna en topplið Manchester City og Arsenal. Brighton er í 8. sæti með níu stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira