Fótbolti

Á­horf­andi fékk sex milljónir fyrir ó­trú­legt skot

Sindri Sverrisson skrifar
Pavel Volkman, fyrir miðju, vissi varla hvernig hann ætti að láta eftir milljónaskotið sitt.
Pavel Volkman, fyrir miðju, vissi varla hvernig hann ætti að láta eftir milljónaskotið sitt. Sparta Prag

Tékkar kunna ýmislegt fyrir sér í fótbolta og það á við um stuðningsmann Sparta Prag sem tryggði sér sex milljóna króna verðlaun með ótrúlegu skoti.

Heimaleikir Sparta Prag fara fram á Letná-leikvanginum sem rúmar tæplega 19.000 manns. Frá því á síðasta ári hefur einn af stuðningsmönnum liðsins fengið, í hálfleik á heimaleikjum, að reyna sig við afar krefjandi skot frá miðju í von um að vinna eina milljón tékkneskra króna, eða jafnvirði sex milljóna íslenskra króna.

Eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan þarf boltinn að fara frá miðjupunktinum og í gegnum lítið gat á marklínunni. Það er erfiðasta þrautin, með hæsta verðlaunafénu, en stuðningsmenn fá einnig að reyna skot frá vítapunkti og vítateigslínu.

Engum hafði tekist að hitta í gatið frá miðju fyrr en að Pavel nokkur Volkman reyndi sig, í leik gegn Sigma á föstudagskvöld. Skot hans fór meðfram blautu grasinu í glæsilegum boga, beint í mark.

Pavel segist á heimasíðu Sparta hafa verið stuðningsmaður liðsins frá fæðingu. Afi hans hafi séð til þess. Pavel hefur heimsótt Letná-leikvanginn reglulega í tuttugu ár og er með ársmiða. Síðustu ár hafa synir hans tveir komið með honum.

En hvernig var að vinna milljónirnar? „Ég býst við að ég átti mig ekki enn á þessu. Sumir voru byrjaðir að fagna strax en það kom mér svolítið á óvart að þetta skyldi takast. Ég man ekkert eftir seinni hálfleiknum af leiknum, því ég var alveg í sjokki. Ég gat heldur ekkert sofið um nóttina en ég er smám saman að ná mér,“ sagði Pavel.

Hann segir að sonur sinn hafi upphaflega átt að fara til að taka spyrnuna en á endanum sá pabbinn um það, kannski sem betur fer. Nú stefnir fjölskyldan á að nýta peningana meðal annars í gott frí, mögulega í skíðaferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×