Lögreglan lýsti eftir mönnunum tveimur eftir hádegi á föstudag og birti myndir af þeim sem virtust teknar úr öryggismyndavélum. Skömmu síðar sendi lögreglan frá sér aðra tilkynningu þar sem hún sagði að upplýsingar væru fram komnar um hverjir þeir væru. Þeirra væri því ekki lengur leitað.
Heimir Ríkharðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Kópavogi, segist ekki geta upplýst að svo stöddu hvort mennirnir hafi verið handteknir.´
Þjófnaðurinn sem málið varðar átti sér stað sunnudagskvöldið 22. september og aðfaranótt mánudagsins á eftir. Nokkrir, bæði karlar og konur, hafa verið handteknir vegna málsins, en þrír sakborningarnir voru búnir að innrita sig inn í flug á Keflavíkurflugvelli.
Fram hefur komið að þýfið nemi tugum milljónum króna, en fjölda síma, dýrum raftækjum og reiðufé var stolið. Öryggiskerfi í annarri verslun Elko virkaði ekki eins og skildi sökum þess að framkvæmdir stóðu yfir á staðnum.
Í samtali við fréttastofu segir Heimir að smávegis þýfi hafi fundist. Þó sé um sé að ræða lítinn hluta af miklu stærra þýfi.
Að hans sögn eru þrír í haldi að svo stöddu, en aðrir höfðu áður verið handteknir en látnir lausir. Þeir sem hafa verið látnir lausir eru enn með stöðu sakbornings.
En þið óttist ekkert að þeir sem eru sakborningar og eru ekki í haldi lögreglu fari úr landi?
„Auðvitað getur það gerst, en það var ekki forsenda fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi, þannig þeim var sleppt.“