Innlent

Fylgi Sjálf­stæðis­flokksins aldrei mælst minna

Atli Ísleifsson skrifar
Bjarni Benediktsson er forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson er forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Vilhelm

Samfylkingin mælist með 26 prósenta fylgi í nýjum Þjóðarpúlsi Gallúps og þá heldur fylgi Sjálfstæðisflokks áfram að minnka og hefur flokkurinn þar aldrei mælst minni. Fylgi Miðflokksins heldur áfram að aukast.

Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallups. Tæplega 24 prósent þeirra sem taka afstöðu segjast styðja ríkisstjórnina og hefur engin ríkisstjórn mælst minni frá upphafi mælinga fyrir þrjátíu árum.

Helsta breyting milli mælinga er að fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar um þrjú prósentustig, fylgi Miðflokks eykst um þrjú prósentustig og fylgi Vinstri grænna eykst um nær prósentustig. Liðlega 14 prósent þeirra sem taka afstöðu segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef kosið yrði til Alþingis í dag. Þetta er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með í Þjóðarpúlsi Gallup frá upphafi mælinga. Rösklega fjögur prósent segjast myndu kjósa Vinstri græn.

Gallup

Þá segir að breytingin á fylgi annarra flokka milli mælinga sé 0,2 til 0,8 prósent og sé ekki tölfræðilega marktæk. Rúmlega 26 prósent kysu Samfylkinguna, ríflega 10 prósent kysu Viðreisn, tæplega átta prósent Pírata og Flokk fólksins. Þá segjast sex prósent myndu kjósa Framsókn og liðlega fimm prósent Sósíalistaflokkinn.

Ríflega sjö prósent segja að þeir myndu skila auðu eða ekki kjósa og þá taka fjórtán prósent ekki afstöðu eða vilja ekki gefa hana upp.

Um var að ræða netkönnun sem Gallup gerði 30. ágúst til 30. september. Heildarúrtakið var 11.138 og þátttökuhlutfallið 48,3 prósent.


Tengdar fréttir

Miðflokkurinn marktækt stærri en Sjálfstæðisflokkurinn

Miðflokkurinn heldur áfram að bæta við fylgi sitt og nýtur nú marktækt meira fylgis en Sjálfstæðisflokkurinn samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Svandís Svavarsdóttir, sem tilkynnti framboð sitt til formanns Vinstri grænna í dag, telur eðlilegt að framtíð stjórnarsamstarfsins verði rædd á landsfundi hreyfingarinnar í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×