Seðlabankinn tilkynnti í gær lækkun stýrivaxta um 0,25 prósentur en þetta er fyrsta stýrivaxtalækkunin í fjögur ár. Arion banki tilkynnti í morgun að óverðtryggðir breytilegir vextir íbúðalána lækki um 0,25 prósentustig og verði 10,64 prósent. Óverðtryggðir fastir vextir lækka um 0,6 prósentustig og verða 8,8 prósent.
„Við hljótum að fagna því að vextir séu lækkaðir. Þetta er skref, þó það sé hænuskref, í rétta átt. Það má ekki gleyma því samt að vextir á íbúðalánum hér á Íslandi eru þrisvar sinnum hærri en til dæmis í Færeyjum. Það er eitthvað sem við verðum að taka á,“ segir Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna.
Verðtryggðir íbúðalánavextir standa í stað en viðskiptabankarnir tilkynntu um hækkun þeirra um miðjan síðasta mánuð.
„Um meira en sem nemur þessari lækkun, þó það sé ekki á sömu lánategundum. Það minnir mann svolítið á það sem maður heyrir í aðdraganda af stórum útsölum að óprúttnir verslanaeigendur stundi að hækka verð rétt fyrir útsöluna bara til að geta lækkað verðið og boðið einhvern afslátt með því. Betur má ef duga skal. Við verðum að ná íbúðalánavöxtum niður, þetta er að sliga skuldug heimili.“
Engin ástæða fyrir hina bankana að bíða
Breki nefndi í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að viðskiptabankarnir hafi oft brugðist mjög hratt við þegar stýrivextir hafa verið hækkaðir en tekið sér lengri tíma þegar þeir eru lækkaðir. Inntur eftir því hvort skjót viðbrögð Arion banka komi á óvart segir Breki:
„Þau hljóta bara að skynja kröfuna í samfélaginu um að bregðast skjótt við vaxtalækkunum og skynja kröfuna úr Seðlabankanum að nú er komið nóg. Því ber að fagna.“
Heldurðu að hinir viðskiptabankarnir fylgi hratt á eftir núna?
„Ég bara rétt vona það og það er engin ástæða til að bíða eftir að lækka vextina. Akkúrat engin,“ segir Breki.
„Vextir á Íslandi eru einir þeir hæstu í hinum vestræna heimi. Við hljótum að kalla eftir því að þeir verði lækkaðir. Það gengur ekki að þeir séu þrisvar sinnum hærri en í Danmörku og tvisvar sinnum hærri en í Noregi. Við gerum þá kröfu að vextir á Íslandi séu sambærilegir við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við.“