Enski boltinn

Holdafarsummæli Guardiola sem myllu­steinn um háls Phillips

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pep Guardiola notaði Kalvin Phillips afar sparlega hjá Manchester City.
Pep Guardiola notaði Kalvin Phillips afar sparlega hjá Manchester City. getty/Nick Potts

Kalvin Phillips segir að ummæli Peps Guardiola, knattspyrnustjóra Manchester City, um holdafar hans hafi haft mikil áhrif á feril hans.

Phillips byrjaði aðeins sex leiki fyrir Manchester City á tveimur árum eftir að hann kom frá Leeds United. Á síðasta tímabili var hann lánaður til West Ham United þar sem ekkert gekk upp hjá honum og núna leikur hann sem lánsmaður með Ipswich Town.

Eftir HM í Katar sagði Guardiola að Phillips væri of þungur og þau ummæli Spánverjans hafa verið sem myllusteinn um háls miðjumannsins.

„Þú heyrðir örugglega þegar Pep sagði að ég væri of þungur eftir HM og þannig. Umræðan á samfélagsmiðlum jókst svo bara og jókst,“ sagði Phillips í hlaðvarpinu My Mate's A Footballer á BBC.

„Hjá hverju einasta félagi sem ég fór til og þegar ég ræddi við stjórann og næringarfræðinginn, þá byrjuðu þeir alltaf að tala um þyngdina áður en þeir sögðu nokkuð annað. Þetta fór að pirra mig en núna er ég kominn til Ipswich þar sem stjórinn er frábær maður sem og stjórinn,“ sagði Phillips og vísaði til Kierans McKenna, stjóra Ipswich.

Guardiola baðst seinna afsökunar á ummælum sínum um Phillips sem City keypti fyrir 42 milljónir punda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×